139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

heildarendurskoðun á Stjórnarráði Íslands.

675. mál
[18:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér enn eitt frumvarpið sem varðar breytingar á Stjórnarráðinu. Þetta frumvarp er, má segja, fylgifrumvarp annars frumvarps, það leiðir af frumvarpinu sem umræðu lauk um fyrr í dag. Það er lagt fram til að fylgja eftir þeirri breytingu sem felst í fyrra frumvarpinu, sem er sú að ekki verði lengur mælt fyrir um það í lögum hvaða ráðuneyti eiga að vera starfandi í landinu heldur eigi það að gerast með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra sem hefur þá væntanlega talsvert svigrúm til að taka slíkar ákvarðanir. Með öðrum orðum er í frumvarpinu víðast hvar verið að fella út heiti einstakra ráðherraembætta og ráðuneyta og gera þetta almennt, talað er um ráðuneyti og ráðherra án þess að tilgreint sé hver á í hlut. Auðvitað má segja að ef hið fyrra þingmál verður að lögum sé ekki óeðlilegt að þetta frumvarp verði samþykkt.

Nú er staðan einfaldlega sú að það atriði í fyrra frumvarpinu sem skiptir mestu máli varðandi þetta frumvarp er mjög umdeilt. Fyrir fram, í ljósi þess hvernig 1. umr. um málið hefur verið hér í þinginu, held ég að lýsa megi verulegum efasemdum um að sú breyting sem einkum hefur verið rædd í fyrra frumvarpinu nái fram að ganga, það er verulega ólíklegt eins og sakir standa að stuðningur sé við málið hér í þinginu. Einföld talning mín hér síðustu daga gefur mér vísbendingu um að meiri hlutinn sé á móti þessari breytingu, að það séu að minnsta kosti 32 þingmenn af 63 sem mundu greiða atkvæði gegn þessari breytingu ef hún kæmi til atkvæða. Ég tel jafnvel að líkurnar á því að nei-atkvæðin yrðu fleiri en 32 séu meiri frekar en það snúist á hinn veginn. Ég hef ástæðu til að ætla að fleiri séu neikvæðir gagnvart þessari breytingu en enn hefur komið fram. Það setur þetta mál í sérstakt ljós af því það vísar til eða er byggt á breytingu sem ég tel afar ólíklegt að nái fram að ganga.

Nú fara þessi mál væntanlega að loknum þessum degi bæði til meðferðar í allsherjarnefnd. Það getur vel verið að í allsherjarnefnd sé meirihlutastuðningur við málið, það gæti þá ratað hér aftur inn í þingsal. Ég hygg að komi þessi mál til atkvæða hér í þinginu bendi allt til þess, skulum við segja, til að hafa eðlilega fyrirvara á, að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna, óháðir þingmenn og að minnsta kosti einn úr ríkisstjórnarliðinu muni greiða atkvæði gegn málinu og þar með sé það fallið. Það gerir það að verkum að fyrir fram tel ég líkurnar á því að frumvarpið nái fram að ganga heldur litlar.

Um efnisatriði þessa tiltekna máls er svo sem ekki mikið að segja. Mér fannst reyndar forvitnilegt að fara í gegnum þetta, sérstaklega vegna þess að þarna hafa embættismenn ráðuneytisins, væntanlega með aðstoð tölvuforrita, fundið ýmis lög sem ég mundi ekki að voru til og vissi kannski aldrei að voru til. Vísað er til laga um ostrurækt frá 1939 og svo eru líka nýlegri lög eins og lög um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og lög um hlutafélagavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka og fleiri ágæt lög. Hér er verið að breyta lögum um heimild fyrir fjármálaráðherra að selja fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins að Síðumúla 34 og jarðhús í Ártúnsbrekku frá 1988. Það hefði nú kannski mátt nota þessa ferð, fyrst verið var að gramsa í lagasafninu með þessum hætti, til að fara í lagahreinsun, því að ýmis lög þarna eru þess eðlis að það mætti, held ég, að ósekju fella þau niður. Nóg um það.

Við höfum þegar lýst breytingum í frumvarpinu og nefnt dæmi. Algengast er að fjármálaráðherra breytist í ráðherra eða forsætisráðherra breytist í ráðherra. Svo koma svolítið sérstakar setningar inn á milli. Í 227. gr. frumvarpsins er t.d. gert ráð fyrir því í b-lið að í stað orðsins „fjármálaráðherra“ í 26. gr. laga — nenni ekki að lesa þetta allt, það eru lögreglulög — standi: „sá ráðherra er fer með tekjuöflun ríkisins“. Menntamálaráðuneyti breytist í 229. gr. í „það ráðuneyti sem fer með fræðslumál“. Maður spyr sig um tilganginn með því að fara í svona leiðangur, en þarna er auðvitað verið að reyna að gæta ákveðins samræmis miðað við þá stefnu sem tekin er í frumvörpum hæstv. forsætisráðherra, en þetta verður svolítið ankannalegt. Ef vísað er til fjármálaráðherra er talað um þann „ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins“ og utanríkisráðherra verður „sá ráðherra sem sér um ræðisskrifstofur og sendiskrifstofur“, á einum stað alla vega. Landbúnaðarráðherra heitir „ráðherra sem fer með málefni landbúnaðarins“. Þetta er svolítið sérstakt. Nóg um það.

Ég vildi, áður en ég lýk máli mínu hér í kvöld, nefna tvo þætti. Annars vegar mótast afstaðan til þessa frumvarps af sömu forsendum og afstaðan til hins fyrra máls. Ég er á móti þessu vegna þess að ég er á móti því atriði í fyrra frumvarpinu sem þessu tengist. Fyrir því er mjög skýr og einföld ástæða: Ég tel að valdið til þess að ákveða hvaða ráðuneyti eru og hvar málaflokkarnir eiga heima eigi að vera hjá Alþingi en ekki hjá ríkisstjórn eða forsætisráðherra. Þetta er tiltölulega einfalt og skýrt. Menn geta haft alls konar skoðanir á þessu. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þarna takast á annars vegar spurning um sveigjanleika og hins vegar spurning um formfestu. Ég vel formfestuna frekar en sveigjanleikann í þessu tilviki.

Ég vil að það sé lögbundið hvernig þessum málum er háttað. Ég vil að ef ríkisstjórn eða ríkisstjórnarmeirihluti á einhverjum tíma vill gera breytingar á Stjórnarráðinu þurfi viðkomandi meiri hluti að fara með slíkar hugmyndir og slíkar tillögur í gegnum þingið með þeim málsmeðferðarreglum sem hér er krafist. Það er vissulega þyngra í vöfum en ef forsætisráðherra getur farið til Bessastaða í von um að fá undirskrift forseta og forsetaúrskurð. Þetta er auðvitað þyngra í vöfum eins og þetta er nú, að mál fari í gegnum þingið og lagabreytingar þurfi til. En ég held að það sé allt í lagi vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þessum lögum eigi ekki að breyta oft. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagi Stjórnarráðsins eigi ekki að breyta oft. Það má breyta því, það má endurskoða það, en það á hins vegar ekki að gera það oft. Það á að vera sæmileg festa í þessu. Ég held að óróleiki og stöðugar og miklar breytingar, ég vil leyfa mér að segja hringl, innan Stjórnarráðsins sé ekkert endilega til þess fallið að gera samfélagið betra. Ég held ekki.

Eins og ég nefndi í umræðum um fyrra málið eru ýmsar tillögur þar sem má taka undir. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég telji að það sé hið besta mál að vinna áfram með þær tillögur, hvort sem það yrði gert í vinnu við það frumvarp sem nú hefur verið vísað til allsherjarnefndar eða með nýju frumvarpi. Eins og ég sagði í andsvari hér í gær hef ég ekkert sterkar meiningar um hvor leiðin er betri. En ég tel að hægt sé að vinna áfram með ýmsar tillögur sem sumar hverjar eru ágætar í hinu frumvarpinu. En gagnvart þeirri meginbreytingu að færa völdin frá þinginu til ríkisstjórnar varðandi það hvaða ráðuneyti eru starfandi og hvaða málaflokkar heyra undir þau þá styð ég það ekki, ég tel að meiri hluti þingsins styðji það ekki og tel að þess vegna væri heppilegast að ýta þessum þætti málsins til hliðar, leggja það á hilluna og einbeita sér að því að vinna að þeim breytingum sem líkur eru á að samkomulag geti náðst um. Ég held það væri miklu skynsamlegra. Þar af leiðandi tel ég að þetta frumvarp eigi ekki að ná fram að ganga, enda byggist það á því að framfylgja stefnu úr hinu frumvarpinu sem ég held að njóti ekki meirihlutastuðnings hér í þinginu.

Það eru auðvitað fleiri atriði og fleiri vinklar á þessu máli sem ástæða væri til að fjalla um. Í umræðum hefur verið nefnt og menn hafa velt vöngum yfir því, þegar menn hafa verið að reyna að velta því upp hvers vegna í veröldinni lögð sé áhersla á þessar breytingar núna, hvort hugsanlega sé um að ræða tengsl við aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Við skulum orða það þannig að einhverjir hafi nefnt að slík tengsl séu fyrir hendi, en þeir sem fyrstir urðu til að búa til þau tengsl voru ekki í þessum þingsal og gerðu það ekki hér í þingræðum. Sú tenging milli þessara breytinga á Stjórnarráðinu annars vegar og Evrópusambandsumsóknarinnar hins vegar er, hygg ég, fyrst sett á blað í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í janúar, í þeirri efnahagsáætlun sem það ráðuneyti lagði fyrir ríkisstjórn og mér skilst að hafi verið samþykkt í ríkisstjórn í janúar og var síðan samþykkt af Evrópusambandinu, áætlun Íslands um efnahagslega aðlögun að Evrópusambandinu. Þar er fjallað um sameiningu ráðuneyta. Það er talið með þeim atriðum sem verið sé að hrinda í framkvæmd til að fylgja eftir efnahagsaðlögun að Evrópusambandinu.

Þetta atriði var líka tekið upp af, hvað eigum við að segja, nafnlausum eða óþekktum höfundum ályktunardraga sem lögð voru fyrir sameiginlega þingmannanefnd ESB og Íslands í síðasta mánuði, lok síðasta mánaðar. Þeir sem sömdu þau drög, sem við vitum ekki hverjir voru, hugsanlega einhverjir embættismenn í Brussel, settu á blað þessi tengsl, töldu þessar breytingar á Stjórnarráðinu upp sem atriði sem skipti máli varðandi framgang aðildarferlisins. Það vorum ekki við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem bjuggum til þessi tengsl við ESB-málið. Alls ekki, ekki eins og ráða má af orðum hæstv. forsætisráðherra sem telur fráleitt að tengja ESB og þessar breytingar á Stjórnarráðinu. En það vorum ekki við þingmenn Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks sem bjuggum þá tengingu til. Hún varð til á vegum ríkisstjórnarinnar, hvort sem þar er um að ræða meðvitaða ákvörðun ráðherra eða eitthvað sem verður til á borði embættismanna eða eitthvað þess háttar. Þannig að því (Forseti hringir.) sé til haga haldið.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég leggst með öðrum orðum gegn frumvarpinu á þeim forsendum sem ég hef lýst (Forseti hringir.) og tel að þingið ætti að einbeita sér að því að vinna að þeim breytingum á stjórnarráðslögunum sem möguleiki er á (Forseti hringir.) að sátt geti náðst um.