139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ríkisframlag til bankanna.

[13:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Haustið 2008 var gerð áætlun um hvernig endurreisa mætti viðskiptabankana þrjá. Þar var gert ráð fyrir að þeir yrðu endurfjármagnaðir með 385 milljarða hlutafjárframlagi úr ríkissjóði. Vonir stóðu til að á endanum mundi ríkið endurheimta þetta hlutafjárframlag auk þess sem ríkissjóður fengi þá verðmætaaukningu sem yrði á bönkunum.

Það var horfið frá þessu plani og farið inn í annað plan þar sem kröfuhafarnir yfirtóku bankana. Fjármálaráðherra hefur marglýst því yfir að þessi málalok hafi komið sér mjög vel fyrir ríkissjóð, það hafi sparast um 200 milljarðar kr. En í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna sem laumað var í blaðabunka hjá mér rétt fyrir páska kemur í ljós að Seðlabankinn og ríkið hafa sett rúma 406 milljarða kr. í að fjármagna bankana í staðinn fyrir 385, þ.e. 21 milljarði meira. Fjármögnun bankanna á þennan hátt og það að láta kröfuhafana hafa bankana hefur leitt til 21 milljarðs meiri útgjalda en upphaflega var gert ráð fyrir. Fjármálaráðherra hefur misst forræðið yfir bönkunum og vænt verðmætaaukning bankanna mun að mestu enda hjá erlendum kröfuhöfum í stað þess að enda hjá ríkissjóði.

Var þetta gert með vitund og vilja hæstv. forsætisráðherra? Var hæstv. forsætisráðherra upplýstur um það að fjármögnunin væri 406 milljarðar kr. í staðinn fyrir 190 (Forseti hringir.) eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði ávallt um?