139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[15:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom því ekki að í ræðu minni að í tillögum okkar framsóknarmanna um nýtingarsamningana sé það skilyrði að þeir séu gerðir við íslenska aðila, í 100% eigu, og jafnvel að um sé að ræða íslenska búsetu, lögheimili, til síðustu fimm ára. Það er til að mynda í samræmi við samninga sem Danir gera um ákveðna þætti í samfélagi sínu.

Ég gat ekki betur heyrt en hæstv. ráðherra væri mér sammála um að nauðsynlegt væri að gera þessa hagfræðilegu úttekt. Hann nefndi líka samfélagslega úttekt og ég get alveg tekið undir það. Það væri mjög áhugavert að slík úttekt yrði gerð af óháðum aðilum. Ég er ekki sammála því að nægilega margar skýrslur liggi fyrir sem sýni það svart á hvítu hver áhrifin séu á eitt og annað, og kannski verður seint 100% ánægja með skýrslur og hægt að rífast um það hver er óháður.

En það er kannski vert að velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið eðlilegra að þetta hefði legið fyrir áður en við færum að fjalla um málið hér. Það hefði verið eðlilegra að menn vissu eitthvað um það hver markmiðin með frumvarpinu væru og hvort hægt væri að reikna það út hvort þau nást, svo að ekki sé einungis um óskhyggju að ræða.

Þessi kerfisbreyting sem hæstv. ráðherra talar hér um, til að mynda um þessir nýtingarsamningar sem eru til 15 ára — hvað þýðir endurskoðun eftir sjö ár? Hvaða áhrif mun það hafa á samninga sem menn gera til 15 ára, hugsanlega, og hverjir fá endurnýjun í þessi 8 ár þannig að um 23 ára samning verði að ræða? Hvað þýðir það? Hvaða skilyrði verða sett um það?

Að lokum: Hvað þýðir það að lögin falla úr gildi (Forseti hringir.) eftir 23 ár? Hvað tekur þá við? Þarna er allt fullt af óvissuþáttum sem er alveg ósvarað.