140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[13:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hamingjuóskir og hlakka til samstarfs við hann sem ég veit að verður málefnalegt og gott. Það er ágætt að hv. þingmaður ræði um skuldirnar því að ég rétt missti af því að fara í andsvar við hann áðan.

Varðandi skuldirnar á ég við heildarskuldir, ekki hreinar skuldir sem eru að sjálfsögðu lægri. Það sem legið hefur fyrir með efnahagsáætluninni er að skuldirnar yrðu að aukast á næstu árum, m.a. vegna styrkingar á gjaldeyrisforða Seðlabankans, þó að draga fari brátt úr skuldasöfnun. Það eru því engar fréttir að skuldirnar séu að aukast. Ég vildi bara vekja athygli á því að það er vaxandi þáttur ríkisfjármála, eins og allir þingmenn vita, og að við eigum að veita vaxtakostnaðinum fulla athygli og þar með skuldastýringunni.

Varðandi þær skuldir og skuldbindingar ríkisins sem eru utan efnahagsreiknings er ég ekki tilbúin að svara því hér og nú hvort ég telji að þær eigi að vera inni í efnahagsreikningi enda hefur ekki verið lagt upp með það. En það er að sjálfsögðu hlutverk fjárlaganefndar að fylgjast með þeim skuldbindingum og tryggja að þar sé ekki verið að reisa sér hurðarás um öxl. Við eigum að sjálfsögðu að láta okkur varða allar skuldir og skuldbindingar ríkisins innan og utan efnahagsreiknings ríkissjóðs.