140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt fyrir þann bjartsýna þingmann sem hér stendur að vera í hlutverki úrtölumannsins, en ég vil þó gjalda varhuga við umræðu sem lofar miklum og umtalsvert meiri hagvexti á Íslandi til langs tíma en gerist og gengur í þeim heimshluta sem við búum í. Ég ætla ekki að segja að það sé að lofa lottóvinningum, en ég held að við Íslendingar þurfum að temja okkur þá hugsun og þann aga í efnahagsmálum að sígandi lukka sé best.

Víst er það rétt um orkuvinnsluna hjá hv. þingmanni sem ég sat með um árabil í stjórn Landsvirkjunar, ég var áður sjálfur í stjórn Orkuveitunnar og þess vegna þekki ég tækifærin í orkuvinnslunni býsna vel og þá mörgu sóknarmöguleika sem þar eru. Fram hjá því verður ekki horft að þeir hvíla allir á ástandi heimsmarkaða, þeir hvíla á eftirspurn eftir áli, á framboði af erlendri fjárfestingu, lánsfjárframboði á Evrópumarkaði og þar fram eftir götunum.

Sömu sögu er að segja um hina auðlindina okkar, höfuðauðlindina, fiskiauðlindina, að endurgjaldið sem við fáum fyrir fiskinn ræðst auðvitað að stóru leyti af efnahagslegri stöðu á útflutningsmörkuðum okkar. Ég vil því segja að 2–3% hagvöxtur í núverandi viðsjám á heimsmörkuðum er allnokkur. Vonandi getum við gert betur. Við skulum keppa að því að gera betur. En ég held að við eigum að varast það að gefa (Forseti hringir.) okkur miklu meiri vöxt til næstu ára og fara að ávísa strax út á það. Það er vísasti (Forseti hringir.) vegurinn til þess að kollsigla okkur aftur.