140. löggjafarþing — 12. fundur,  19. okt. 2011.

skuldaúrvinnsla lánastofnana -- tjón af manngerðum jarðskjálftum -- aðgerðir í efnahagsmálum o.fl.

[15:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég hafði ætlað að ræða annað hér en í ljósi þeirrar umræðu sem hér spannst um forseta Íslands og bréfaskriftir milli hans og forsætisráðherra langar mig að blanda mér inn í þær umræður. Allt frá því að forsetinn í tvígang vísaði Icesave-samningum í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur öllum sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum, hvort sem er hér inni á Alþingi eða annars staðar, verið ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur verið í heilögu stríði við forseta Íslands.

Ef einhver ætti að skoða og meta viðbrögð sín við síðustu tveimur árum er það hæstv. forsætisráðherra. En hennar flokkur og hæstv. ríkisstjórn í tvígang — í öllu falli í fyrsta skiptið áttu Icesave-samningar að fara í gegnum ríkisstjórn án þess að nokkur hefði séð þá, í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna án þess að nokkur aðili hefði séð þá. Allir mærðu þessa samninga. Þegar ríkisstjórnin kynnti þá í fyrsta skipti áttu þeir einungis að fela í sér örfáa milljarða á ríkissjóð en sú tala hækkaði og hækkaði eftir því sem meira var gert opinbert. Þetta var vegna þess að menn nenntu ekki að hanga yfir þessu lengur og svo hleypti Alþingi Íslendinga þessu í gegn, felldi í tvígang þjóðaratkvæðagreiðslu um málið og forseti Íslands tók stöðu með fólkinu, vísaði þessu til þjóðaratkvæðagreiðslu, og síðan hefur ríkisstjórnin verið í heilögu stríði við forseta Íslands. Þetta er öllum ljóst sem fylgjast með.

Ég er algerlega sammála forseta Íslands um að hæstv. forsætisráðherra ætti að hætta þessu. Hann ætti að hætta þessu bulli og snúa sér að því sem máli skiptir að koma Íslandi út úr þeirri kreppu sem við erum í.