140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

þingsköp Alþingis.

101. mál
[16:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það er ekki endilega fjöldi talsmanna sem skiptir máli þegar til kastanna kemur en hins vegar hefur fjöldinn ákveðin áhrif. Tökum núverandi kringumstæður, 32 þingmenn styðja þessa ríkisstjórn, tíu þeirra eru ráðherrar líka. Stjórnarandstaðan er að jafnaði með 31 þingmann en það hafa verið nokkur hlaup í þessum tölum á báða bóga, hefur farið svolítið eftir málum og aðstæðum. En ef við göngum út frá því að 32 þingmenn styðji ríkisstjórnina og 31 sé á móti. Við þessa breytingu fjölgar öðrum megin um tíu en ekkert gerist hinum megin. Kannski verður hægt að herja aftur út fjárveitingu til að hafa einn nefndarritara sem sérstaklega sinnir stjórnarandstöðunni. Ég held að það sé búið að leggja af þá stöðu sem var hérna, einn nefndarritara sem átti sérstaklega að sinna störfum fyrir stjórnarandstöðuna í nefndum. Það er svolítill aðstöðumunur í þessu.

Varðandi aftur það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði um þetta sérkennilega aðstoðarmannakerfi sem var gerð tilraun með í eitt og hálft ár er ég alveg sammála honum um að ef við leitum leiða til að efla þingið og stöðu stjórnarandstöðunnar eigum við að fara einhverja allt aðra leið en var farin í því sambandi. Hún var hálfgert klúður. Þó að ásetningurinn hafi verið ágætur og það hafi verið ætlunin að efna tíu ára gamalt loforð í tengslum við kjördæmabreytingu og eitthvað þess háttar var það að minnsta kosti ekki sú útfærsla sem ég vil sjá í þeim efnum.