140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú deili ég ekki þeirri skoðun með hv. þingmanni, sem hér stóð á undan mér, að það sé sperringur að berjast fyrir vegabótum víða um land, en það er önnur saga.

Ég tel hins vegar mjög brýnt að ef þessi tillaga nær fram að ganga verði hvergi slegið af eðlilegum kröfum, eða öllu heldur eðlilegum óskum, Vestfirðinga um að til þeirra verði lagður nútímalegur og öruggur vegur á láglendi. Ég tel það vera frumforsendu þess að byggð og gott samfélag þrífist á Vestfjörðum, rétt eins og aðrir landsmenn gera tilkall til, hvort heldur það er suðvestanlands, fyrir austan, norðan eða sunnan. Vestfirðingar hafa setið mjög eftir í samgöngumálum á þeim árum sem mestum peningum og fjármunum hefur verið varið til þess málaflokks. Enda þótt margt hafi áunnist í þeim málum, svo sem með jarðgangagerð og öruggari vegum í þeim landshluta eins og í öðrum landshlutum, búa Vestfirðir og reyndar líka Miðausturland við einhver verstu vegaskilyrði sem boðið er upp á hér á landi við núverandi aðstæður.

Ég spyr hv. framsögumann þessa máls hvort kostnaðarmat liggi fyrir varðandi göng, við Hjallaháls, Ódrjúgsháls og fleiri heiðar á þessu svæði. Ég tel að það muni hafa í för með sér mun meiri kostnað en lagning vega á öðrum slóðum sem eru vel innan þess mögulega á þessu svæði. Liggur fyrir kostnaðarmat við göng, þess vegna fleiri en ein, eða aðrar leiðir á láglendi? Láglendisvegur er forsenda þess að samfélagið þrífist á þessu svæði.