140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta bregðast heilbrigðisstofnanir ekki öðruvísi við niðurskurðartillögum en með því að draga saman reksturinn á einn eða annan hátt. Ég skil ekki þetta orðalag, að beðið sé eftir viðbrögðum þeirra. Það logar allt stafnanna á milli á landsbyggðinni og í þeim heilbrigðisstofnunum sem mestur niðurskurður er.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Í áliti meiri hlutans segir að hann árétti nauðsyn þess að fyrir liggi stefna og áætlun til langs tíma um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar og innan hvaða fjárhagsramma hún eigi að starfa. Við verðum að fá svör við því hvort formaður hv. velferðarnefndar standi við eigið álit eða hafi skipt um skoðun á tveim, þrem dögum.

Hv. þingmaður svaraði mér ekki af hverju hefði ekki verið ráðist í þessa skýrslugerð og úttektir fyrr. Hvar er byggðaúttektin sem var lofað að gerð yrði við síðustu fjárlagagerð fyrir um ári síðan? Hvar er hún?

Eitt í viðbót. Er ekkert samband á milli velferðarráðuneytis og velferðarnefndar? Hefur velferðarnefnd ekki hugmynd um að hverju er verið að vinna innan velferðarráðuneytisins og hvenær megi vænta grundvallarskýrslna, eins og hefur komið fram hérna í umræðunni um fjárlögin?

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að ég fái svör við þessum mikilvægu spurningum. Ég hélt fyrr í dag að ríkisstjórnin, einhverjir væru búnir að átta sig á því (Forseti hringir.) að það væri ekki hægt að gjörbylta heilbrigðiskerfi landsmanna án þess að fara í (Forseti hringir.) úttektir og marka stefnu um hvernig ætti að gera það.