140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

ályktun Íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar.

[13:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ályktað sérstaklega um íslenska tungu. Við teljum að hana þurfi að styrkja og viðhalda þurfi tungumálinu og þróa það. Við ályktuðum um þetta á síðasta flokksþingi.

Við höfum talsvert miklar áhyggjur af því að lesskilningi hrakar. Maður heyrir það sérstaklega þegar unglingar tala að bæta þarf mikið þá umgjörð sem börn búa við. Ég vil þá taka fram að þetta er sameiginlegt verkefni margra sem þurfa að koma að því að bæta málfar íslenskra barna og lesskilning. Þar er fjölskyldan auðvitað í broddi fylkingar, skólarnir. Ég vil líka tiltaka Ríkisútvarpið, bæði sjónvarp og útvarp, það er gríðarlega mikilvægt að talað sé fallegt íslenskt mál bæði í útvarpi og sjónvarpi. Það er líka mikilvægt vegna þess að lesskilningi hefur því miður hrakað. Maður veltir því þá fyrir sér hvort það séu innihaldslitlir frasar að halda því fram að Ísland sé mikil bókmenntaþjóð og hvort við getum montað okkur af því að taka upp íslensk nýyrði o.s.frv. þegar maður sér að lesskilningi hrakar. Mikilvægt er að finna aðferðir sem henta börnum við lestur. Það hefur sýnt sig að svokölluð lesbretti henta sérstaklega vel, m.a. drengjum. Og það er ágætt að minnast á lesbretti í þessu samhengi af því að hv. málshefjandi, Mörður Árnason, og hv. þm. Helgi Hjörvar stóðu fyrir því að þrýsta á það að lesbretti yrðu lækkuð í verði svo og rafbækur og fyrir það ber að þakka.

Það er gríðarlega mikilvægt að umgjörðin verði þannig að börn læri betra íslenskt mál og auki lesskilning sinn. Við erum á eftir miðað við PISA-kannanir, bæði undir meðallagi í stærðfræði og náttúrufræði. Lesskilningi hrakar, börn hér á landi lesa minna en börn í Evrópu, þannig að við þurfum virkilega að taka okkur á.