140. löggjafarþing — 31. fundur,  5. des. 2011.

staða framhaldsskólanna.

[16:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og fagna líka þeim samhljómi sem heyrðist. Ég held að það sé alveg ljóst að þingið mun þurfa að taka afstöðu til þess að við þurfum að horfa til uppbyggingar í framhaldsskólakerfinu. Það er ekki skrýtið að hljóðið sé þungt í skólameisturum framhaldsskóla því að þeir hafa auðvitað tekið á sig talsverðan niðurskurð á undanförnum þremur árum eftir hagræðingartímabil. Þeir hafa staðið mjög vel undir þeim erfiðu kröfum sem til þeirra hafa verið gerðar á sama tíma og við höfum ætlast til þess að þeir tækju við fleira fólki, stuðluðu áfram að þróunarstarfi, nýsköpun o.fl. þannig að von mín er að við getum horft núna til uppbyggingar. Það er mjög gott að heyra að fólk er sammála um það.

Aðeins vegna þeirra mála sem voru nefnd hérna vil ég minna á það sem kom fram áðan, af því að hv. þingmenn gerðu sérstaklega að umtalsefni verklegt nám, að þar skiptir vinnustaðanámssjóðurinn gríðarlegu máli og þróunarsjóður sem er sérstaklega ætlaður fyrir starfsnám með 300 millj. kr. framlagi til þróunar og nýsköpunar á þessum vettvangi. Við skulum ekki vanmeta það framtak sem er hluti af Nám er vinnandi vegur.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi reiknilíkanið sem við höfum áður rætt á þessum vettvangi og má auðvitað alltaf deila um hvaða nákvæmu breytur eru hafðar þar til hliðsjónar. Bent hefur verið á að það þurfi að horfa til fámennari skóla, sem hefur verið gert með gólfi eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi, og það hefur verið bent á að launastiku reiknilíkansins þurfi að endurskoða svo dæmi sé tekið. Það tengist því sem hv. málshefjandi nefndi um aldur kennara sem fer hækkandi sem auðvitað skapar vandamál í skólum sem eru komnir með eldra kennaralið og er þar af leiðandi með minni kennsluskyldu. Þetta er nokkuð sem við þurfum að hafa í stöðugri endurskoðun.

Hv. málshefjandi nefndi einstaklinga með sérþarfir og ég gat ekki svarað því í fyrra innleggi mínu. Ég minni á að reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum er núna í umsagnaferli. Hún verður væntanlega samþykkt fyrir áramót og ég held að við sjáum fram á miklar framfarir í þeirri þjónustu eins og hafa orðið á leik- og grunnskólastigi, þ.e. hvað varðar þjónustu við nemendur með sérþarfir. Þar hefur verið unnið (Forseti hringir.) feikilega gott starf á undanförnum árum í því að skapa námstækifæri fyrir alla og við sjáum að það verður formgert í auknum mæli með þessari nýju reglugerð.