140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór einfaldlega yfir aðdragandann hér til þess að rifja upp og benda á það með tilvitnunum að öllum var ljóst hvað gæti verið í vændum þegar þessu var hrint úr vör. Mér finnst stundum eins og menn láti núna eins og það sé einhver seinni tíma uppfinning að niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis kynnu að leiða til þess að Alþingi yrði að takast á við mögulegar ákærur á hendur ráðherrum. Það lá algerlega fyrir að menn voru meðvitaðir um að það gæti gerst. Þess vegna var það undirbúið með þeim hætti sem ég fór yfir og tilvitnanir í lagagreinarnar sýna það. Menn gerðu sér fulla grein fyrir því að þeir gætu átt það í vændum að niðurstaða rannsóknarnefndarinnar yrði sú að spurning um vanrækslu eða lögbrot eða annað slíkt kynni að koma upp.

Ég er ósammála hv. þingmanni um að það sé skynsamlegt að Alþingi fari lengra með þetta mál. Ég held að það sé þvert á móti afar varhugavert svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Það að þessi tillaga komi fram er í sjálfu sér býsna alvarlegur atburður vegna þess að málið er langt komið í meðferð dómstólsins. Auðvitað vekur það óróleika þegar slíkt gerist og er viss truflun á hina réttarfarslegu framvindu málsins. Hún fer á allt annað stig ef Alþingi tekur málið það alvarlega að það fer að senda það í þingnefnd og velta því fyrir sér hvort eigi að sækja málið inn í dóm. Það er það sem þetta snýst um. Menn hljóta að þurfa gríðarlega góð efnisleg rök fyrir því að fara út í svo alvarlegar aðgerðir þegar um samskipti valdþáttanna í samfélaginu er að ræða því að í stjórnarskrá okkar stendur að dómendur fari með dómsvaldið. Við eigum ekki — og eigum að varast það óskaplega — að setja okkur í þau spor á Alþingi. Það er ekki okkar hlutverk.