140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einhvern tímann var talað um að fiskur lægi undir steini. Ég veit ekki hvað leynist undir torfunni en hitt dugar okkur nú ekki til, mér og hv. þm. Kristjáni Möller, að leiða til lykta vangaveltur okkar og skoðanir á Vestmannaeyjaferju annars vegar og Vaðlaheiðargöngum hins vegar. Ég tel ... (Gripið fram í: Ertu að bakka?) Ég er ekki að bakka, ég er að segja að þetta sé grafalvarleg umræða. Þetta eru ekki sambærilegar framkvæmdir sem við erum að ræða þarna en við eigum ekki að binda okkur í nein form að sjálfsögðu. Við gerum það sem við teljum vera heppilegast fyrir notendur og fyrir ríkissjóð en framar öllu, og það á við um Vestmannaeyjaferju og það á við um Vaðlaheiðargöng, á allt að vera uppi á borði, allt að vera sýnilegt, allt að þola gagnrýnið auga Alþingis. Ég vona að það auga sé sem opnast og gagnrýnast (Forseti hringir.) og við eigum að hlusta á hvað kemur út úr könnunum og þeirri umræðu sem hér fer fram.