140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru orð í tíma töluð. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta því að það skiptir máli að þessi orð heyrist skýrt meðal annars frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ekki síst frá utanríkisráðherra. Ég fagna því sérstaklega að menn eru íhaldssamir í þessum efnum og mættu vera á fleiri sviðum.

Ég ítreka það sem ég var að reyna að koma að í mínu fyrra andsvari, gerði það ekki nægilega skýrt, og það var þessi heildstæða nálgun. Skil ég það rétt að innanríkisráðherra muni fylgja samningnum eftir með frumvörpum til breytinga á lögum, m.a. almennum hegningarlögum? Mun hann líka eða aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni fara yfir það hvernig, af því að hæstv. ráðherra bendir á ferðaþjónustuna, komið verður í veg fyrir að búin verði til einhver ferðaþjónusta í tengslum við þennan óskapnað? Hvernig munum við geta tæklað það að fara strax í að taka á þessu þannig að þetta muni aldrei festa rætur á Íslandi? Við erum búin að sjá ákveðna þætti skipulagðrar brotastarfsemi festa rætur. Við erum að reyna að spyrna við því. Við erum að reyna að losa þær rætur upp frá rótum, taka þær algjörlega í heilu lagi frá íslensku samfélagi. Hvað munum við sjá frá hæstv. ríkisstjórn þannig að við verðum öruggari? Við getum aldrei orðið fullviss um það en að minnsta kosti öruggari í því að við erum í baráttu gegn því að þetta festi rætur á Íslandi.