140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

493. mál
[16:01]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt sem þingmaðurinn sagði, ég gæti ekki verið meira sammála honum um að illa hafi verið haldið á málum eftir hrun og mörg ófyrirgefanleg mistök verið gerð við endurreisn bankanna. Hv. þingmaður nefndi gífurlegar fjárhæðir í ræðu sinni en þær finnst mér eiginlega vera sönnun á því að bankarnir þrír voru gefnir á sínum tíma, það voru í raun miklu stærri bankar og þar voru meiri verðmæti en þó miklu lægra söluverð en á þeim fyrirtækjum sem um er að ræða núna.

Hér var aðeins hnýtt í þá sístritandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem væri óskandi að málið yrði tekið upp í. Ég veit að hv. þingmaður hefur vísað því þangað inn og ég er áhugasöm um að vinna að því máli í nefndinni. En hv. þingmaður mætti gjarnan ýta á fulltrúa sína í nefndinni, þeir hafa ekki sýnt málinu neinn áhuga.