140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

fjölmiðlar.

599. mál
[15:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að ég hafi skýrt breytingarnar á bak við 6. og 7. gr. sem ég tel vera tæknilegs eðlis. Þegar kemur að 10. gr. legg ég þetta hér fram, ekki til þess að troða neinu niður í kok á hv. þingmönnum, heldur hreinlega vegna þess að fjölmiðlanefndin hefur gert miklar athugasemdir við það að hún hafi skyldum að gegna, lagaskyldum að gegna — hún eigi að hafa eftirlit með því að fjölmiðlar miðli ekki að hatursáróðri, en þar sem skilgreining fjölmiðlalaganna á honum sé talsvert breiðari en sú grein hegningarlaga sem ég nefndi hér áðan hafi hún engin meðul til að sinna því lagahlutverki. Þetta er ábending sem kemur frá fjölmiðlanefndinni og ég hef farið yfir. Ég átta mig alveg á þeirri umræðu og þeim breytingum sem nefndin gerði á sínum tíma hér í þinginu, en ég tel mér skylt að vekja athygli þingsins á því að fjölmiðlanefnd telur sig ekki geta uppfyllt sitt lögbundna hlutverk með þeim heimildum sem eru til staðar í lögum. Þetta ætlast ég til að nefndin skoði á nýjan leik, eða bið um að nefndin skoði á nýjan leik.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður segir um sjóð er ég hjartanlega sammála henni um það. Það væri langæskilegast að geta haft einhvern blaðamennskusjóð þar sem blaðamenn, hvort sem þeir eru fastráðnir eða lausráðnir í fjölmiðlum, gætu sótt um styrki til að sinna rannsóknarblaðamennsku. Ég held að þetta væri alveg gríðarlega æskilegt og hefur raunar verið áhugamál mitt um nokkurt skeið. Hitt sem ég mundi vilja sjá væru einhvers konar styrkir til staðbundinna fjölmiðla sem oft eiga erfitt uppdráttar um tekjustofna en skipta mjög miklu máli fyrir fjölbreytni í fjölmiðlum. Þessa tvo þætti væri mjög gott að geta styrkt. Efnahagsaðstæður hafa hins vegar ekki beinlínis verið hvetjandi fyrir slík nýmæli. En ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er eitthvað sem við ættum að gera.

Svo mundi ég aldrei nokkurn tímann segja að ég þoli ekki framsóknarmenn þó það sé alveg rétt að maður verði að hafa rétt á því að geta sagt það.