140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

609. mál
[16:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann, sem er nú skyggnastur um fjármál allra manna sem sitja endranær í þessum sölum, að Evrópusambandið hefur svo sannarlega kynnt sér það. Hér hefur sambandið verið með hverja sendinefndina á fætur annarri til að ræða til dæmis við Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og aðra og hefur nú reyndar, að því er kom fram í ræðu yfirmanns Fjármálaeftirlitsins á sínum tíma, lagt fram mjög gagnlegar ábendingar um hvernig standa eigi að þeim málum.

Eitt af því sem Evrópusambandið hefur sýnt hvað mestan áhuga á í kjölfar hrunsins eru einmitt endurbætur á eftirlitskerfi okkar og það hefur svo sannarlega kynnt sér krosseignatengsl og annað. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður er mér fróðari um það en ég veit ekki betur en að innan Evópusambandsins sé einmitt í gangi vinna sem miðar að því að koma í veg fyrir þær hættur sem liggja í slíkum tengslum. Ég hef sjálfur hlustað á ræður sem menn hafa flutt á vettvangi Evrópusambandsins þar sem vísað er til íslenska dæmisins, meðal annars vegna þess hvernig hin undarlegustu vensl sem þá ófst ofan af leiddu að hluta til, og kannski að öllu leyti, til þeirra miklu hremminga sem riðu þá yfir okkur.

Að öðru leyti er ég alveg sammála hv. þingmanni eins og jafnan þegar hann kemur stundum upp þegar ég flyt hér mál sem tengjast Evrópusambandinu, EES og fjármálageira Íslands að það er meira en sjálfsagt að utanríkismálanefnd sendi þetta mál til viðeigandi fagnefndar. Ég held að það sé alltaf gert og að hún styðjist við álit þess.