140. löggjafarþing — 89. fundur,  26. apr. 2012.

utanríkis- og alþjóðamál.

761. mál
[12:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði komið á framfæri athugasemdum við Evrópusambandið þar sem það hefur komið svo skýrt fram margítrekað frá Evrópusambandinu að um væri að ræða tvíhliða deilu. Ég hefði gert athugasemd við það að nú settu þeir niður á blað formlega kröfu um ákveðna niðurstöðu í málinu og rökstuðning fyrir henni á þeirri forsendu að Evrópusambandið og öll ríki þess hefðu beina hagsmuni af niðurstöðunni. Ég hefði sagt: Heyrðu, það er ekki samræmi í þeim málflutningi og maður getur ekki treyst samskiptum við menn sem segja eitt í dag og annað á morgun. Það breytir því hins vegar ekki að út frá réttarfarslegu sjónarmiði, út frá lagatæknilegu sjónarmiði, fyrir framgang málsins og fyrir málsvörn okkar fyrir dómstólum, er þetta ekkert verra. Hitt skiptir samt máli og það verður ekkert horft fram hjá því.

Þetta sem snertir Evrópusamrunann og átökin innan Evrópusamstarfsins hefur helst verið á dagskrá út af evrunni sjálfri. Þetta hefur svo sem áður verið á dagskrá, til dæmis út af Schengen. Menn hafa spurt sig: Viljum við ganga þetta langt? Þar völdu menn þá leið að leyfa mönnum að vera fyrir utan. Nýjustu aðgerðirnar vegna evrunnar eru sama eðlis. Þar komast menn upp með að vera ekki með. Þeir sem eru ekki inni í evrusamstarfinu þurfa ekki að undirgangast ströng viðmið í ríkisfjármálum og fyrir sinn fjármálageira með mögulegri skattlagningu og öðru því sem fylgir þessum hugmyndum.

Taka mætti til fleiri dæmi um ný svið þar sem Evrópusambandið er að færa út kvíarnar, þar sem ríki hafa sagt: Kannski ættum við ekki að vera með í þessu.

Þetta er það Evrópusamstarf sem ég hefði helst viljað sjá þróast áfram þar sem ríki geta til dæmis verið sátt við samning á borð við Evrópska efnahagssvæðið og fengið að taka þátt í hluta samstarfsins að öðru leyti. Þannig geta menn verið misjafnlega djúpt (Forseti hringir.) í Evrópusamrunanum, ella held ég að menn muni reka sig á veggi. Þess vegna koma fram yfirlýsingar eins og þessi sem Schultz kom með í gær.