140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[19:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér fer fram þátturinn „Endurtekið efni“ því rætt var um það í dag, í aðdraganda þess að greidd voru atkvæði um lengd þingfundar, hvert erindið yrði í þeirri umræðu sem hér fer fram. Það er það sem menn vita, að ræða mál í 1. umr. meðal annars til þess að undirbúa góða og vandaða meðferð í nefndum þingsins. Þetta eru allt stór og mikilvæg mál eins og hefur komið fram fyrr í dag og mig undrar satt best að segja ef hv. þingmenn eru ekki tilbúnir til að tryggja góða og vandaða meðferð í nefndum eins og til að mynda með niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem er þriðja mál á dagskrá. Ég hvet menn til að nýta tímann betur en síðustu tíu mínútur eða svo og ljúka að minnsta kosti umræðu um fyrsta málið áður en við förum til kvöldverðarhlés og síðan höldum við áfram.