140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. þingmaður um tengsl Evrópska efnahagssvæðisins eða ESB við þetta mál. Ég tel að búið sé að leysa það. Hæstv. ríkisstjórn er búin að ganga erinda Evrópusambandsins með því að reka hv. þm. Jón Bjarnason, fyrrum hæstv. ráðherra, úr embætti. Því var að sjálfsögðu fagnað og málið var leyst. Ég held að Evrópusambandið sé ekkert mikið að skipta sér af því hvernig ráðuneytin eru uppbyggð, svo fremi sem þau geri það sem þau eiga að gera að þeirra mati til að aðlaga Ísland að aðild að Evrópusambandinu. Það er ljóst og leynt verið að vinna að því í öllum ráðuneytum að koma því í gegn.

Það er áhugavert að skoða nákvæmlega af hverju lögð er ofuráhersla á þetta eina mál, því að það hefur í raun ekkert í för með sér nema útgjöld og óreiðu. Ef það verður samþykkt fer það í framkvæmd í september, október, eins og ég gat um og verður komið í gagnið um það leyti sem kosið verður. Ný ríkisstjórn mun að loknum kosningum örugglega koma með nýtt skipurit yfir ráðuneytin. Menn eru því eingöngu að búa til kostnað og óreiðu í þjóðfélagi þar sem er allt of mikil óreiða fyrir, þar sem fjölskyldurnar vita ekki hvernig fjármálastaðan verður næstu vikurnar o.s.frv.

Svo er það náttúrlega auðlindaráðuneytið. Ég held að það sé númer eitt, tvö og þrjú í hugum mjög margra grænna sem eru uggandi yfir öllum virkjunum og vilja helst ekki sjá þær. Það væri gaman að heyra hver afstaða hv. stjórnarliða er til þess af hverju menn eru að drífa þetta svona í gegn.