140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að vinnulaginu og verklaginu er verulega ábótavant og það hefur verið gagnrýnt. Það var gagnrýnt í þessari margumtöluðu þingmannaskýrslu. Þar var m.a. fjallað um hvernig alþingismenn gætu styrkt stöðu sína sem þingmenn og þá um leið styrkt stöðu Alþingis, og fjallað um rétt þingmanna til upplýsinga, aðgengi að faglegri ráðgjöf og stöðu stjórnarandstöðu sem gegnir mikilvægu aðhaldshlutverki, svo ég vísi beint til skýrslunnar. Einnig var fjallað um að breyta þyrfti ýmsu. Við höfum til dæmis breytt þingsköpum. Ég nefndi í andsvari mínu áðan að þegar þær hugmyndir komu upp að formenn kæmu úr stjórnarandstöðuflokkunum leið ekki sólarhringur þar til að það kom í ljós hvernig stjórnarmeirihlutinn vildi í raun haga sér. Hann treysti ekki manni sem hann hafði treyst í tvö ár, til að vera áfram formaður í nefnd vegna þess að nú var hann orðinn stjórnarandstöðumaður. (Gripið fram í.)

Ég held að við munum ekki komast út úr þeim vítahring sem við erum í nema með því að breyta fjölmörgum þáttum. Einn þátturinn er hvort við þurfum að flýta þeim tíma sem þarf að leggja mál inn fyrir þing til að þau hljóti þinglega meðferð og verði kláruð á yfirstandandi þingi. Ég hef líka oft talað um að þessi þörf á að setja 200 lög eða lagabreytingar á hverju ári geri að verkum að þingið verður eins og hálfgerð afgreiðslustofnun að lokum og að við ættum einfaldlega að gefa okkur meiri tíma. Lykilatriðið er að þegar breyta á stórum málum eða málum sem ágreiningur er um eiga allar ríkisstjórnir á hvaða tíma sem er að leita hreinlega samráðs, (Forseti hringir.) samvinnu og samstarfs við fleiri en sjálfa sig áður en þær (Forseti hringir.) reyna að troða málum inn með minnsta mögulega meiri hluta og oft á tíðum minni hluta eins og við horfum upp á í dag.