140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota seinna andsvarið til að ramma inn afstöðu mína. Hún er þessi: Það liggur fyrir að fyrir hrun var staðan sú að mati Samkeppniseftirlitsins að bankarnir þrír sem þá voru stærstir væru í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Síðan hefur þróunin orðið sú að samþjöppun í fjármálakerfinu hefur stórlega aukist, m.a. vegna tilverknaðar ríkisstjórnarinnar sem hefur verið að breyta hér lagaumhverfi sem hefur beinlínis stuðlað að þessu. Það hefur komið fram að lítil fyrirtæki sem hafa verið að spretta upp hafa orðið að sameinast inn í stóru fyrirtækin af þeim ástæðum sem ég er að lýsa. Það finnst mér vond þróun. Það liggur fyrir að samþjöppunin á fjármálamarkaði er mun meiri núna en hún var fyrir hrun þegar Samkeppniseftirlitið taldi að bankarnir þrír væru í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu.

Nú stöndum við á ákveðnum tímamótum gagnvart sparisjóðunum. Það er verið að reyna að búa til lagaumhverfi fyrir þá til þess að þeir geti lifað, menn getur greint á um það en það er líka annað sem við stöndum frammi fyrir og það er þetta: Ríkið hefur ráðandi eignarhlut í að minnsta kosti fimm sparisjóðum í landinu. Ríkið hefur lýst þeim áformum sínum að selja þennan eignarhlut. Það hefur komið fram að ríkið ætlar að selja eignir til að geta uppfyllt markmið sín í fjárlögunum. Það liggur fyrir að það á ekki að selja eignir í Landsbankanum á þessu ári og þá virðist manni að sjónum sé beint að sparisjóðunum. Því spyr ég og kalla bara eftir því almennt í viðhorfum manna: Eru menn þeirrar skoðunar að það eigi að gerast án tillits til samþjöppunar á markaðnum? Vilja menn hafa áhrif á það að við reynum frekar að stuðla að meiri dreifingu valds og áhrifa í fjármálakerfinu? Ég er þeirrar skoðunar, og ég er að segja þetta vegna þess að ég tel að ríkisvaldið og ríkisstjórnin hafi þessi mál mjög í hendi sér einmitt um þessar mundir.