140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessar vangaveltur um hugtakanotkun í stjórnmálum eru mjög áhugaverðar og auðvitað mörg dæmi í sögunni um að menn hafi reynt að fela vandræðagang við stjórn ríkja með því að bæta í oft og tíðum óljósa hugtakanotkun, nota jákvæð orð til að fela lítinn raunverulegan árangur. Rithöfundurinn George Orwell gerir þetta til dæmis að umfjöllunarefni í skáldsögum sínum. Hann var nú vinstri maður en samt þótti honum nóg um tilhneigingu sósíalista og kommúnista til að fela árangursleysi með óljósri hugtakanotkun með því að nota fögur orð til að beina athyglinni frá raunveruleikanum. Í Austur-Þýskalandi, Sovétríkjunum og fleiri löndum settu menn flennistórar myndir utan á fjölbýlishús með einmitt orðum eins og lýðræði, jafnrétti og þar fram eftir götunum. Innstæðan var hins vegar lítil.

Sér hv. þingmaður (Forseti hringir.) í þessum tillögum eitthvert sögulegt samhengi? Ég vísa sérstaklega til þess að staða efnahagsmála á Íslandi er eins og hún er.