140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór yfir þær spurningar sem til stendur að leggja fyrir í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í október og fór vel yfir það að þetta stangaðist raunverulega hvað á við annað, sérstaklega í ljósi þess, miðað við það sem hann fór yfir í spurningu eitt, að þetta er raunverulega sett upp sem nei-spurning. Þess vegna tel ég að hinum fimm spurningunum hafi verið bætt við vegna þess, eins og þingmaðurinn fór yfir, að vel má vera að þorra landsmanna lítist vel á einhverjar tillögur stjórnlagaráðsins en geti ekki sætt sig við hinar. Þess vegna er mjög líklegt að það komi nei út úr þeirri spurningu, að það eigi ekki að hafa tillögur stjórnlagaráðs sem grunn að nýrri stjórnarskrá. Þá bætti meiri hlutinn þessum fimm spurningum við til að það kæmi eitthvað út úr þessari skoðanakönnun. Það væri ekkert neyðarlegra fyrir stjórnvöld en að fara með þetta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og spyrja hvort tillögur stjórnlagaráðs ættu að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá og fá svo bara nei. Þúsund milljónir farnar út um gluggann sem þetta ferli hefur kostað og hæstv. forsætisráðherra líklega alveg hreint miður sín því að hún er fyrst og fremst barnsmóðir þessa vandræðamáls en getur á einhvern hátt ekki tekið það skref að bera ábyrgð á þessu öllu saman. Þann dag sem Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingskosninguna ógilda átti að stoppa málið, líta yfir sviðið, annaðhvort að kjósa aftur eða fara með málið inn í þingið því að við þingmenn förum fyrst og fremst með stjórnarskipunarvaldið. Því er ekki hægt að úthýsa. Nei. Þá bregður hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir á það ráð að leika tafaleiki, tafaleik eftir tafaleik sem við þekkjum, (Forseti hringir.) með því að halda málinu frá þinginu. Þetta endaði núna í þeirri hörmung að það er verið að boða til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um raunverulega ekki neitt og svo er því haldið fram (Forseti hringir.) að hér sé verið að kjósa um alla stjórnarskrána.