141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja þessa umræðu með því að hrósa heimamönnum og sjálfboðaliðum Landsbjargar og öðrum þeim sem hafa komið að máli, Almannavörnum og sýslumanni, fyrir gríðarlega góð störf. Ég vil jafnframt þakka formanni atvinnuveganefndar, Kristjáni L. Möller, fyrir að hafa tekið vel í þá beiðni mína og hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að halda fund um þetta mál í atvinnuveganefnd í morgun, um raforkutjónið og tjón bænda á svæðinu, jafnframt þakka ég honum fyrir umræðuna hér.

Margt varðandi raforkutjónið hefur komið hér fram. Dreifikerfið er víða orðið mjög gamalt, allt að 50 ára gamalt, á umræddu svæði var það orðið 50 ára, en sem betur fer var búið að koma stórum hluta af því í jörðu. Af 8 þús. kílómetrum er verið að reyna að endurnýja 200–300 kílómetra á ári og það tekur þar af leiðandi mjög langan tíma. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið sé með tiltæka úttekt á landsvísu til að velta því fyrir sér hvort við þurfum að flýta framkvæmdum á þessu svæði.

Varðandi almannavarnaástandið er spurning hvort kallað hafi verið nægilega fljótt til að lýsa yfir neyðarástandi. Við fengum að vita það í morgun að þar sem ekki var lýst yfir neyðarástandi bárust upplýsingar ekki vel og kannski er ekki eins vel haldið utan um þau mál þó að allir geri auðvitað sitt besta.

Tjón í sveitum er gríðarlegt á skepnum og girðingum og annað tjón sem erfitt er að meta. Bjargráðasjóður er þar auðvitað að störfum og það er mikilvægt. Ég tek undir það að ríkisstjórnin standi eins vel við bakið á fólki þarna og gert var í eldgosunum undir Eyjafjöllum og í Vatnajökli.

Ljóst er, frú forseti, að við erum ekki búin að sjá heildarmatið á tjóninu. Við þurfum kannski að bíða allt til loka október eftir því. Það er mikið álag á fólki þarna og þess vegna er mikilvægt að stjórnvöld geri það sem hægt er að gera og gera þarf á þessum tímapunkti og bregðist síðan við þegar fyrir liggur hvert heildartjónið er.