141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[14:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og í samfélaginu. Ferðaþjónustan hefur sótt fram undanfarin ár og mikil uppbygging hefur átt sér stað. Það hefur verið gaman að fylgjast með vítt og breitt um landið hvernig ferðaþjónustan hefur styrkt sig sem ein af grunnatvinnugreinum, ekki hvað síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Þar höfum við séð mikla grósku, fjölgun ferðamanna, uppbyggingu á gistiþjónustu, afþreyingu og fleira.

Það hefur loðað við ríkisstjórnina að hún fari fram með einhvers konar aðgerðir til að bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu og atvinnugreinar sem ganga vel og sem eru að byrja að sækja í sig veðrið. Þeim fer fjölgandi sem tala um að vandamálið varðandi atvinnuuppbyggingu hér á landi sé ekki síst af pólitískum toga, það sé orðið stærra vandamál en náttúruhamfarir, ástand efnahagsmála, gjaldmiðilsmál, gjaldeyrishöft og fleiri þættir. Menn segja að pólitískur óstöðugleiki vaki yfir og lítil og stór fyrirtæki geti ekki gert áætlanir nema til mjög skamms tíma vegna þess að ríkisstjórnin geri sífellt breytingar sem valdi kollsteypu hjá viðkomandi atvinnugrein.

Ferðaþjónustan mátti því búast við einhverju höggi frá ríkisstjórninni en ég held að fæsta hafi grunað að gengið yrði fram með þeim hætti sem birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu þar sem hækka á virðisaukaskatt á gistingu um hátt í 20% á einu bretti. Við verðum að átta okkur á því að ferðaþjónustan er byggð upp með þeim hætti að langflestir sem starfa í þeirri atvinnugrein eru jafnvel búnir að selja stóran hluta af gistirými fyrir árið 2013 og byrjaðir að selja inn í árið 2014. Þeir gerðu þá ráð fyrir að miðað væri við þann ramma sem ríkisvaldið setur þeirri atvinnugrein sem fer ört vaxandi. Greinin byggir svo sannarlega á fullri sátt við náttúruna í þessu landi og ætti því að vera í samræmi við það sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað um, annað en iðnaður, stóriðja og annað því um líkt. Þessi skattahækkun veldur því að búið er að kippa fótunum undan atvinnugreininni því að þeir sem starfa í greininni gerðu ráð fyrir sömu umgjörð og áður í stórum hluta af pöntunum fyrir árið 2013. Þetta er það sem átt er við þegar talað er um pólitískan óstöðugleika og að fyrirtæki geti ekki gert áætlanir fram í tímann.

Við höfum heyrt af því fréttir að hækkunin hafi hægt á áformum um frekari uppbyggingu víða í ferðaþjónustu. Við höfum séð skýrslur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þess efnis að hún muni geta dregið verulega úr ferðamannastraumi til Íslands, það gæti jafnvel fækkað um hátt í 50 þús. ferðamenn á næsta ári. Við höfum heyrt að menn hafi áhyggjur af því að hækkunin muni ekki hvað síst koma illa við landsbyggðina vegna þess að þegar gisting hækkar samhliða breytingu á gjaldskrá bílaleigubíla muni það draga allverulega úr því að ferðamenn ferðist út til hinna dreifðu byggða. Við höfum reynt undanfarin ár að byggja upp ferðaþjónustu allt í kringum landið, lengja ferðamannatímann og fjölga viðkomustöðum fyrir ferðamenn með markaðssetningu á þeim.

Í ljósi þessa og stöðunnar í þessum málum langar mig að beina nokkrum spurningum til hæstv. atvinnuvegaráðherra:

1. Hversu miklar gjaldeyristekjur skapar ferðaþjónustan?

2. Hversu margir hafa beina atvinnu af ferðaþjónustu?

3. Hversu mörg afleidd störf skapar ferðaþjónustan?

4. Hversu háir eru skattar á gistingu á Norðurlöndunum?

5. Hversu háir eru skattar á gistingu að meðaltali innan Evrópusambandsins og Evrópuþjóða?

6. Hvað má áætla að hækkun skatts á ferðaþjónustu auki svarta atvinnustarfsemi mikið?

7. Hvaða áhrif mun fyrirhuguð hækkun hafa á stöðu ferðaþjónustunnar almennt, framtíðarmöguleika, uppbyggingu og annað því um líkt?

8. Telur ráðherra fyrirhugaða skattahækkun hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu í ferðaþjónustu víðs vegar um landið?

9. Má vænta frekari skattahækkana á ferðaþjónustuna af hálfu ríkisstjórnarinnar?