141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

þjónustusamningur við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

245. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil nota seinni ræðu mína í þessum fyrirspurnatíma til að hvetja hæstv. ráðherra til að ýta á eftir því að reynt verði að ná þessum samningi í hús. Það er óþolandi fyrir stofnun eins og þessa að vera ávallt, á hverju einasta ári, í sama baslinu sem fylgir því að vita ekki hver framtíðin verður. Þar sem það er algjörlega ljóst, ég held að allir séu sammála um það, að þessi starfsemi er fyrirmynd fyrir það sem hægt er að gera annars staðar á landinu hljótum við öll að vera sammála um að leggja ber áherslu á að koma þessum málum á hreint þannig að menn þurfi ekki endalaust að vera í óvissu um framtíðina. Það slær auðvitað heimamenn sérstaklega illa þegar framlagið á fjárlögunum sem lögð eru fram núna lækkar eins mikið og raun ber vitni.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ekki er hægt að ræða samningagerð sem stendur yfir í smáatriðum í ræðustól Alþingis en engu að síður tel ég mikilvægt að ýta við þessu máli, einfaldlega í ljósi þess sem þegar hefur verið sagt á undanförnum árum um þessa ágætu stofnun. Ég taldi að náðst hefði skilningur á því hjá öllum sem málið varðar að stofnunin væri með sín mál á hreinu og reksturinn væri til fyrirmyndar.