141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á laugardaginn var afgerandi.

Eins og kunnugt er var leitað til sérfræðinga í júní til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs. Páll Þórarinsson lögfræðingur, einn úr hópi sérfræðinganna, mætti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun og skýrði frá gangi mála. Hæstv. forsætisráðherra rifjaði hér upp þau atriði sem sérfræðingarnir unnu eftir og ég tel því óþarft að gera það. En sérfræðingarnir vonast til að geta skilað okkur frumvarpi með drögum að greinargerð innan tveggja vikna. Hugsanlega gæti það tafist um örfáa daga. Þeir halda í heiðri þann ramma sem þeim var settur við efni tillagna stjórnlagaráðsins og gera aðeins á þeim tæknilegar breytingar. Ef eitthvað er hins vegar í tillögunum sem þeir telja að betur megi fara þá munu þeir gera grein fyrir því í skilabréfi. Ekki er hægt að taka þann rétt af sérfræðingum sem fengnir eru til starfa af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Frumvarpið verður síðan lagt fyrir þingið og rætt í þremur umræðum eins og lög gera ráð fyrir. Það ætti að vera hægt að ljúka 1. umr. fyrir jól og síðan tel ég að þetta eigi að vera málið — með stórum stöfum — sem við fjöllum um eftir jól. Mér finnst að þingið eigi að sýna þessu mikilvæga máli þá virðingu að samið verði um hvernig umræðu verði háttað. Finnum út hversu lengi menn telja sig verða að tala og skipuleggjum störf þingsins í samræmi við það. Ég trúi því ekki að við í þessum sal viljum ekki gera okkar til að auka álit fólks á þessari samkundu sem er því miður ekki mikið nú um stundir. Það getum við gert með því að standa málefnalega og prúðmannlega að þessari mikilvægu umræðu.

Ég fullyrði að þingið hefur aldrei verið eins vel nestað í nokkra umræðu. Við höfum þjóðfundinn, stjórnlaganefndina og hennar miklu vinnu, tillögur stjórnlagaráðsins og svör þess við spurningum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fyrir það þegar það kom saman 8.–11. mars — margir virðast alveg hafa gleymt þeim kafla í þessari atburðarás. Svo höfum við vinnu sérfræðinganna sem er um það bil að ljúka og síðast en ekki síst leiðsögn fólksins í landinu sem hefur sett okkur rammann sem það vill að við störfum innan og við eigum að gera.

Virðulegi forseti. Leiðsögn fólksins er ekki að taka eitt skref núna og annað á næsta kjörtímabili og svo það þriðja einhvern tíma seinna. Leiðsögnin er að samþykkja breytingar á stjórnarskránni fyrir kosningar. Leiðsögnin er að tillögur stjórnlagaráðsins verði lagðar til grundvallar þeim breytingum. Við getum auðveldlega klárað það verk og um leið aukið álit fólksins sem við störfum hjá og fyrir á löggjafarsamkundunni.