141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða hér bréf sem við þingmenn fengum í hólfin okkar í gær og birtist í Fréttablaðinu í morgun. Það er opið bréf til allra þingmanna frá Dag Andre Johansen sem er forstjóri og eigandi RAC Scandinavia sem rekur meðal annars Avis- og Budget-bílaleigurnar. Hann vildi í þessu bréfi deila með okkur reynslu sinni af því að koma inn á íslenskan markað sem erlendur fjárfestir. Hann gerir athugasemd við það verklag sem ríkisstjórn Íslands sýnir heilli atvinnugrein með því að hækka fyrirvaralaust vörugjöld þvert á yfirlýst markmið þessara sömu stjórnvalda sem birtast meðal annars í ferðamálaáætlun stjórnvalda til ársins 2015.

Hann segir hér, með leyfi forseta:

„Ég get fullvissað ykkur um að í samkeppnislöndum Íslands, í Skandinavíu, tíðkast ekki að stjórnvöld reki slíkan fleyg í eina atvinnugrein með svo dramatískum hætti og með jafnskömmum fyrirvara og boðað er.“

Þetta eru skilaboð erlends fjárfestis sem er að koma hingað til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi þrátt fyrir gjaldeyrishöft, þrátt fyrir að hér hafi orðið efnahagshrun, hann er að koma hingað vegna þess að hann gerði þau mistök að trúa því að áætlanir og fyrirheit, gefin af íslenskum stjórnvöldum, mundu standast.

Áhrifin af þessum gjörningi verða ekki bara til skaða fyrir þennan fjárfesti eða þessa atvinnugrein, skaðinn felst ekki síst í þeim skilaboðum sem verið er að senda út fyrir landsteinana til þeirra sem vilja þó koma hingað og fjárfesta. Ég hef þá trú að margir renni hýru auga (Forseti hringir.) til fjárfestinga hér á landi. Þess vegna eigum við að taka svona skilaboð alvarlega og læra af þeim. Eins (Forseti hringir.) og sagt hefur verið: Svona gerir maður ekki.