141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu málefni og það er rétt sem fram kom í hans upphafsorðum að hann hafði óskað eftir umræðunni fyrr. Það eru ákveðnir kostir þó að taka hana núna þegar nokkuð er um liðið frá umræddum atburðum því nú liggja staðreyndir ljósar fyrir en áður var.

Eins og hv. þingmaður hefur rifjað hér upp gekk vonskuveður yfir Norðurland dagana 9. og 10. september sl. Verst var veðrið í Þingeyjarsýslum með ofsaroki og fannfergi. Heldur minni vindur en svipuð ofankoma varð í Eyjafirði, Skagafirði og hluta af Húnavatnssýslum.

Veðurstofan hafði þann 8. september varað við stormi, 18–23 m/s, en gert var ráð fyrir rigningu samhliða storminum. Ekki voru gefnar út sérstakar viðvaranir og Veðurstofan hafði ekki samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra líkt og gert er þegar búist er við slæmu veðri. Almennt virtust fáir gera ráð fyrir því að þetta veður gæti haft mikil áhrif á þessari stundu. Reyndin varð önnur. Veðurhæðin var heldur meiri og úrkoman varð snjór og áhrifin afdrifarík. Öskubylur með mikilli ísingu. Rafmagnslínur brotnuðu, girðingar lögðust undan veðrinu og sá gríðarlegi fjöldi sauðfjár sem enn var á fjöllum tvístraðist og grófst undir snjó. Fjöldi fannst dauður en mörgum var bjargað úr snjónum og voru dæmi um að kindur og lömb fyndust lifandi eftir 45 daga í fönn.

Rarik og Landsnet gripu strax til ráðstafana til viðgerða á raflínum. Bændur hófu eftirgrennslan eftir fé sínu en á mánudeginum 10. september voru þær upplýsingar ekki enn fyrir hendi hversu alvarlegur atburður þetta var. Björgunarsveitir höfðu verið kallaðar út til aðstoðar en ekki var talið að verkefnið væri stórt. Það var ekki fyrr en þann 11. september að beiðnir um aðstoð fóru að streyma inn til lögreglunnar á Húsavík og ástandið fór að skýrast. Síðdegis þann sama dag var lýst yfir almannavarnaástandi í Þingeyjarsýslum og umfangsmiklar björgunaraðgerðir voru þá þegar komnar í gang.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kannaði ástand hjá lögregluumdæmunum á Akureyri, Sauðárkróki og Blönduósi en engar beiðnir um aðstoð höfðu borist þeim. Því var áherslan lögð á Þingeyjarsýslur og var fjölmennu björgunarliði víða af landinu stefnt þangað, m.a. komu björgunarsveitir frá nærliggjandi umdæmum á Norðurlandi. Björgunaraðgerðir þessar stóðu allt fram undir mánaðamótin með hléum. Íbúafundir voru haldnir og farið yfir málin og fulltrúar stofnana skýrðu þá kosti sem voru í stöðunni varðandi bætur og aðra aðstoð. Fundirnir voru vel sóttir.

Helgina 21.–23. september fór hópur á vegum almannavarnadeildar um Norðurland til að leggja mat á ástandið og það tjón sem orðið hefði. Þá var ljóst að talsvert tjón hafði orðið á girðingum en ómögulegt að sjá hve það var mikið og hvort það væri með þeim hætti að mikill kostnaður hlytist af í bótagreiðslum. Tjón vegna rafmagnsleysis varð einnig talsvert en ekki var heldur ljóst um tjón á gróðri. Langalvarlegast var talinn fjöldi þess sauðfjár sem enn hefur ekki tekist að ná af fjalli.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem safna mátti þá var áætlað að enn vantaði 5.500 kindur og lömb og að beint tjón bænda og afurðastöðva yrði verulegt þegar upp væri staðið. Því var eindregin þörf á frekari leitaraðgerðum víðar en í Þingeyjarsýslum. Var sérstök fjárveiting veitt til þess að standa straum af viðamiklum leitaraðgerðum fyrir norðan. Hafist var handa við umfangsmikla skipulagningu leitaraðgerða sem fram fór 28.–30. september. Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna leitaði þá í Skagafirði, Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum en fulltrúar bænda í Húnavatnssýslum afþökkuðu aðstoð þar.

Á fundum sem haldnir hafa verið á þessum tíma með bændum, eftir aðgerðirnar, kom í ljós að fæstir utan Þingeyjarsýslu áttuðu sig á alvarleika ástandsins fyrr en eftir marga daga og fáum datt í hug, ef nokkrum, að leita aðstoðar á þessum svæðum.

Í þessum aðgerðum komu í ljós ýmsir veikleikar. Víðtækt rafmagnsleysi hafði áhrif á fjarskipti þegar varaafl þraut á fjarskiptasendum sem hafði þau áhrif að farsímasambandslaust varð og útsendingar útvarps og sjónvarps duttu út. Alvarlegt var einnig að dæmi voru um að rafmagnsleysið ylli því að alveg símasambandslaust yrði til dæmis á bæjum í Skagafirði og í Bárðardal. Einn sendir í Tetra-kerfinu missti samband við miðkerfið vegna þessa en sendirinn var í lagi að öðru leyti og þjónaði sem stakur endurvarpi. (Forseti hringir.) Allir sendar Tetra-kerfisins eru búnir tvöföldu varaafli en þeir eru þó háðir flutningi um örbylgju eða ljósleiðara til að vera í sambandi við miðkerfið.

Ég mun víkja að því sem eftir stendur í síðari ræðu minni hér á eftir.