141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek upp mál sem hefur verið til umfjöllunar á þingi í allt að tíu ár en hefur aldrei fengið almennilega úrlausn og er reyndar stöðugt í þróun. Í kjölfar kjördæmaviku þingmanna stóð það upp úr hjá nánast öllum sveitarstjórnum á Suðurlandi, sérstaklega þeim sem hafa yfir dreifbýli að segja, að þar séu þessi mál í miklum ólestri. Það er alveg sama hvort við erum að ræða GSM-samband eða internet, jafnvel sjónvarp, allir bentu á þá stefnumótun sem verið hefur um að allir eigi að hafa aðgang og að almennilegt internet og GSM-samband sé forsenda atvinnuuppbyggingar í dreifbýli og hefur meðal annars verið bent á ferðaþjónustuna.

Eins og við þekkjum söguna átti fjarskiptasjóður að koma þarna inn til að jafna þessa stöðu á landsbyggðinni en vegna þess að horft var til samkeppnissjónarmiða var settur upp einhver listi yfir staði sem fjarskiptasjóður mátti koma inn á en annars ekki. Það voru um það bil tíu fyrirtæki sem fóru meira af vilja en getu og settu upp internetsamband víðs vegar um landið sem varð til þess að þau svæði eru álitin samkeppnissvæði en stóru fyrirtækin og þar af leiðandi fjarskiptasjóður hafa ekki sinnt þessum svæðum sem skyldi. Þar fyrir utan verður að segjast eins og er að forgangsröðunin er svolítið sérstök. Dæmi eru um mjög veik landsvæði atvinnulega séð, og vil ég nefna Skaftárhrepp, sem litlu fyrirtækin fóru ekki inn á en engu að síður hefur ekki enn verið lögð sérstök áhersla á þau svæði hjá fjarskiptasjóði. Á árinu 2005 var fyrirspurn í þinginu þar um og sagt að í forgang yrðu Vestfirðir og Norðausturland. Ég spyr hæstv. ráðherra af hverju önnur sambærileg landsvæði, eins og Skaftárhreppur, voru ekki þar inni.

Á landsfundi og flokksráðsfundi Vinstri grænna undanfarin tvö ár hefur verið fjallað um að ríkið ætti að eignast Mílu svo að þetta kerfi yrði aftur í eigu hins opinbera, þ.e. ljósleiðari hringinn í kringum landið, eins og um hringveginn, yrði í eigu hins opinbera og samkeppnissjónarmiðin ættu við gagnvart þeim fyrirtækjum sem keyptu sér aðgang að því til að þjónusta fólk um allt land. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það standi til. Það má líka minnast á að þingsályktunartillaga sem lögð var fram 2006 og 2007 af tveimur fyrrverandi ráðherrum og tveimur núverandi ráðherrum Samfylkingarinnar laut að því sama, þ.e. að byggja upp traust internetsamband á landinu öllu. Þess vegna vil ég gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hver staðan sé núna og forgangsröðunin og hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir þessu.

Í grein sem dr. Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur birti í Morgunblaðinu í mars á þessu ári fjallaði hann um fjarskiptaáætlun og talaði um að útlit væri fyrir að utan veitusvæðis Gagnaveitu Reykjavíkur mundi internetið aðeins sinna þörfum til heimilisnota. Spurning hans var í raun og veru: Á engin nútímastarfsemi að þrífast utan höfuðborgarsvæðisins? Meðalafköst á netinu eru nú þegar lakari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum samkvæmt alþjóðlegri tölfræði og þess vegna er veruleg þörf á nýrri stefnumörkun af hálfu hins opinbera í þessu máli. Internetið er jafnan í almannaeigu í nágrannaríkjunum og þar fjárfesta rafveitur, sem oft eru reknar af sveitarfélögum eða öðrum opinberum aðilum, í ljósleiðara en smásalan er svo í höndum annarra og oft í samkeppni, eðlilega. Hlutverk opinberra aðila er meðal annars að auka jöfnuð og jafna tækifæri, eins og kemur fram í grein áðurnefnds dr. Hauks Arnþórssonar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver á að tryggja jafnræði landsmanna í þessu tilliti? Fram hefur komið í fréttum á þessu ári að Síminn segir: Ekki ég. Vodafone segir: Ekki ég. Þetta minnir svolítið á söguna um litlu gulu hænuna. Þá er spurningin: Hver ætlar að tryggja jafnræði landsmanna að öflugu internetsambandi? Hverjir ætla að koma að því að byggja það upp eða er ekki meiningin að það verði gert?

Nú þegar hafa tvö sveitarfélög á Suðurlandi lagt ljósleiðara, annars vegar Öræfin eða sveitarfélagið Hornafjörður og hins vegar Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Önnur sveitarfélög eru að velta því fyrir sér. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Kæmi til greina að fjarskiptasjóður kæmi þar inn og styrkti þessa starfsemi hjá öðrum sveitarfélögum og þá líka hringinn í kringum landið til að tryggja jafnræði allra landsmanna að (Forseti hringir.) þessari nauðsynlegu þjónustubraut?