141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

stefna ASÍ vegna skattlagningar lífeyrisréttinda.

[10:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig ég á að skilja þetta svar. Það sem mér virtist hæstv. forsætisráðherra vera að segja er að það séu lífeyrissjóðirnir með aðild verkalýðshreyfingarinnar sem séu að brjóta samninga. Ég vil að hæstv. forsætisráðherra segi þetta þá bara skýrt, það sé þannig, að mati hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar, að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin hafi verið að brjóta gefin fyrirheit.

Hæstv. forsætisráðherra er greinilega að boða okkur að fast verði haldið við þessa skattlagningu sem sérstaklega bitnar á almennu lífeyrissjóðunum eins og Alþýðusamband Íslands bendir á. Alþýðusamband Íslands er að rifja það upp hér að eins og málin eru núna lögð upp muni þessi skerðing, þessi skattlagning á lífeyrissjóðina, fyrst og fremst bitna á lífeyrisréttindum fólks á almennum vinnumarkaði. Er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála því að þannig sé það, að það muni leiða til þess að lífeyrisréttindi fólks á almenna markaðnum muni skerðast?

Hæstv. forsætisráðherra getur ekkert vikið sér undan því að fyrir liggur álit Alþýðusambands Íslands um það að ekki bara einu sinni, ekki bara tvisvar, heldur þrisvar í mjög veigamiklu máli hafi hæstv. ríkisstjórn brotið samkomulag. Þetta eru auðvitað ekki einu dæmin, (Forseti hringir.) við vitum að þannig hefur þetta verið í samskiptum við aðila á vinnumarkaðnum og ekki síst verkalýðshreyfinguna. Og nú situr hæstv. ríkisstjórn uppi með það að hafa verið krýnd heimsmeistaratitlinum í því að svíkja gefin loforð.