141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara beint síðustu spurningu hv. þingmanns vegna þess að ég hef ekki mótað mér afstöðu til þess hvert hlutfallið á nákvæmlega að vera. En ég er sammála hv. þingmanni um að það er eðlilegt við svona aðstæður að hafa ferlið við að samþykkja fullveldisframsal þyngra og erfiðara en á við um venjulega lagasetningu. Ég held að í þessu sambandi þurfi að horfa á samspil þess sem fer fram á þinginu og hvort krafist er þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef einungis þingið á að fá að afgreiða fullveldisframsal held ég að það sé rétt að gera kröfu um mjög hátt hlutfall innan þingsins. Ef þjóðaratkvæðagreiðslu er krafist er kominn annar varnagli, ef svo má segja, og þá er þörfin til að hafa mjög háan þröskuld á þinginu ekki sú sama og áður. Það þarf því að horfa á þetta í samspili. Ég tek fram að ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að meiri háttar fullveldisframsal eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er stærri spurning hvernig meðhöndla eigi í þinginu það sem við getum kallað minni háttar eða vægara fullveldisframsal. Ég sæi fyrir mér að það gæti verið gert með ákvæði um mjög stóran meiri hluta á þingi þannig að ljóst sé að samstaða sé mjög breið um slíka breytingu, eigi hún að ná fram að ganga. En meiri háttar framsal á alltaf að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég ætla að nota tækifærið hér í blálokin til að minna á svar forsætisráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um stjórnarskrána og Evrópusambandið sem víkur að hluta til að þessum atriðum. Og bara til að það komi inn í þessa umræðu þá kemur fram í svarinu að forsætisráðherra telur, á grundvelli lagahópsins sem starfar á vegum samninganefndar við ESB, (Forseti hringir.) að hugsanlega þurfi að gera fleiri breytingar á stjórnarskránni en er að finna í tillögum stjórnlagaráðs. Það er umhugsunarefni fyrir okkur þegar hvort tveggja er í gangi, stjórnarskrárvinna og aðildarumsókn að Evrópusambandinu.