141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn hv. þingmanns lýtur að nokkrum atriðum sem ég nefndi í ræðu minni. Í fyrsta lagi því að spár hafi ekki gengið eftir hjá ríkisstjórninni, í öðru lagi því sem ég nefndi sérstaklega varðandi stóriðjuna, að gert er ráð fyrir verulegum framkvæmdum í stóriðju á hverju ári en svo er ekkert gert til að auðvelda mönnum það. Í rauninni er frekar staðið í vegi fyrir því og þvælst fyrir. Þess vegna má því miður álykta sem svo, eins og mér heyrðist hv. þingmaður gera, að áætlanir muni ekki ganga eftir, þ.e. að ekki verði af þessum framkvæmdum á Bakka vegna þess að ríkið sé ekki tilbúið að leggja í sinn hluta kostnaðarins.

Þarna komum við þá inn á enn eitt atriðið sem ég nefndi, sem er skortur á því að meta heildaráhrifin. Þarna spara menn sér 2,6 milljarða kr. fjárfestingu í innviðum sem eru nauðsynlegir til að komast í uppbyggingu sem gæti og mundi skapa þeim mun meiri tekjur. En það skortir langtímasýnina og heildarsýnina. Menn spara bara þessa 2,6 milljarða en tjónið sem af því hlýst er þeim mun meira.

Að lokum vil ég nefna að þetta er ekkert einsdæmi vegna þess að við sáum í dag fréttir af því að horfið hefði verið frá því að reisa álkaplaverksmiðju á Seyðisfirði vegna þess að það skorti framlög. Hæstv. atvinnuvegaráðherra sagði frá framtakssjóði lífeyrissjóðanna en á móti má spyrja eins og verkefnisstjórinn spurði: Hefði ekki ríkisvaldið getað greitt fyrir þessu með tiltölulega litlu framlagi gegnum Byggðastofnun fyrst framtakssjóðurinn var ekki reiðubúinn til þess? Reyndar verður að taka fram að hæstv. ráðherra sagðist hafa verið viljugur til þess og þá hefði mátt koma þessu verkefni af stað.