141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé algjör grundvallarspurning sem hv. þingmaður spyr. Ég vil halda því fram að það sé hárrétt nálgun að þær fjárfestingar sem hér er lagt upp með í fjárfestingapakka ríkisstjórnarinnar — eflaust getur eitthvað af þeim skilað einhverri arðsemi til langs tíma litið. En þær skila ekki arðsemi á næsta ári eða þarnæsta ári eða jafnvel mörg ár fram í tímann. Fjárfestingarnar byggja mikið á rannsókna- og þróunarvinnu sem skilar sér eflaust á endanum. En þær flokkast ekki sem fjárfestingar sem skila arði fljótt og vel.

Það er líka hárrétt að öll útgjöld sem eru umfram tekjur mynda stofn til vaxta hjá hinu opinbera, þau bæta við skuldir hins opinbera. Þau hækka vaxtakostnað, sem er ekki 60 og eitthvað milljarðar eins og hv. þingmaður hélt fram, heldur 84 milljarðar. Vaxtakostnaður ríkisins á næsta ári er áætlaður vera í kringum 84 milljarðar. Það er ljóst að það eru algjörir blóðpeningar, það eru peningar sem betur væru komnir í grunnþjónustu og fjárfestingum sem skila okkur auknum hagvexti til framtíðar.