141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar menn horfa til baka og velta fyrir sér þeirri fjárlagaumræðu sem nú hefur staðið um nokkurt skeið óttast ég að umræðan um hana muni falla mjög í skuggann af þeim dapurlegu atburðum sem urðu hér í fyrrakvöld þegar tveir hv. þingmenn gengu fram af flestum í athæfi sínu með því að ganga hér fyrir framan forsetastól og ræðustól með skilti til þess að tjá hug sinn um það sem væri að gerast í umræðunni um fjárlögin.

Á þessu kjörtímabili hefur það gerst í aðdraganda jólahlés og einnig að vorlagi áður en þing fer heim í hefðbundið hlé að stjórnarliðar hafa farið með miklum harmkvælum upp í ræðustól endrum og sinnum til að væla undan því að umræður um einstök mál standi lengur en þeim finnst æskilegt.

Þær umræður sem við alþingismenn höfum efnt til um einstök stórmál eins og Stjórnarráðið, fiskveiðistjórnarmál, stjórnlagatillögur og nú fjárlögin verðskulda að þær geti farið fram með tiltölulega afslöppuðum hætti þannig að menn geti rætt þau mál efnislega eins og efni standa til. Það er ekkert eðlilegt að búast við því að hægt sé að ræða svona stórmál, sem eru líka sett fram í öllum tilvikum í formi mikilla átaka af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, á mjög skömmum tíma. Þegar til viðbótar kemur að í öllum tilvikum hafa málin verið ákaflega vanbúin, tekið síðan breytingum í meðförum þingsins vegna þess hve vanbúin þau voru og sett fram í miklum ágreiningi sem hefur einkennt öll hin stærri mál hæstv. ríkisstjórnar, er ekki við öðru að búast en að umræðan taki mið af því og vinnubrögðin og undirbúningurinn setji síðan mark sitt á umræðuna.

Það sem hér er að gerast er einfaldlega það að við erum að reyna að ræða um fjárlagafrumvarpið og fara yfir það. Þetta er síðasta fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar og á vissan hátt dálítið uppgjör við fortíðina á þessu kjörtímabili. Þess vegna er eðlilegt og raunar nauðsynlegt að það sé rætt býsna ítarlega og farið yfir það efnislega.

Þar sem ég hef haft aðstöðu til að fylgjast með þessari umræðu tel ég að hún hafi verið efnisleg. Þingmenn hafa vakið athygli á ýmsum veilum í fjárlagafrumvarpinu en líka bent á ýmislegt sem segja má að hafi tekist vel til. Þetta er bara hin eðlilega umræða. Það er hins vegar farið að verða dálítið þreytandi að þurfa að upplifa það, bæði að vorlagi og á aðventunni, að stjórnarliðar komi hér í einhvers konar vælukjóastíl, séu með kveinstafi og kvarti undan því að umræða standi um einstök stórmál í einhverja klukkutíma.

Þó er það ekkert einsdæmi að til dæmis fjárlagafrumvarp hafi verið rætt ítarlega. Vakin hefur verið athygli á því að til dæmis þegar hin dæmalausa uppákoma varð hér í þingsalnum að kvöldlagi hafði umræðan um fjárlagafrumvarpið staðið mun skemur en t.d. umræðan um fjárlagafrumvarpið á haustdögum 2007 fyrir árið 2008. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem nýsloppinn er úr fjármálaráðuneytinu, hefur haldið uppi miklum hræðsluáróðri í fjölmiðlum og endurtekið hann í þingsölum um að með sama áframhaldi sé verið að skapa ákveðna hættu á því að ríkissjóður geti reitt fram fjárskuldbindingar sínar, greitt laun og annað þess háttar og heimildin til að reka ríkissjóð falli úr gildi núna um áramótin. Þetta er sagt 3. og 4. desember, hér um bil einum mánuði áður en þau áramót renna upp. En þegar við skoðum aftur í tímann, t.d. söguna á þessu kjörtímabili, hefur 2. umr. fjárlaga yfirleitt aldrei klárast á þessum tíma, hún hefur raunar alltaf klárast miklu seinna án þess að einhverjar hömlur hafi orðið á því að ríkissjóður gæti staðið við skuldbindingar sínar, borgað laun o.s.frv.

Þetta segir okkur að gríðarleg örvænting er greinilega brostin á í stjórnarliðinu. Menn skynja að staða ríkisstjórnarflokkanna er mjög bágborin um þessar mundir og fylgi þeirra mælist slaklegt. Þrátt fyrir margs konar tilraunir til að reyna að rétta úr kútnum, m.a. með miklum lúðrablæstri í kringum fjárfestingaráætlanir, með því að keyra upp átök um sjálfa stjórnarskrána og fleira sem mætti nefna sem allt eru tilraunir til að reyna að rétta hlut ríkisstjórnarinnar og hafa fyrst og fremst þann eina megintilgang, gengur hvorki né rekur hjá ríkisstjórninni að rétta úr kútnum og rétta sinn hlut. Þá líður stjórnarliðum auðvitað ekkert sérstaklega vel og bregðast við með því að leggjast í einhvers konar örvæntingarkast eins og hæstv. ráðherra var birtingarmynd af í þingsalnum núna eftir hádegið og í útvarpinu í morgun.

Þetta er hins vegar alveg fráleitt. Það liggur fyrir að við höfum nægan tíma til að afgreiða fjárlagafrumvarpið. Við þurfum að ræða það efnislega og ítarlega eins og við höfum verið að reyna að gera, þótt ég vilji segja að mér finnst mjög margt í því enn þá vera órætt. Við höfum tækifæri til að gera það síðar á þessum sólarhring, svo ég vitni í orðalag sem fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, núverandi forseti Íslands, hafði stundum um þegar hann var að tala um framtíðina. Þá talaði hann gjarnan um að þessir hlutir mundu skýrast á næstu sólarhringum. Þeir sem við áttu að búa og bjuggust við að þurfa að vinna vinnuna við undirbúning viðkomandi mála sáu fyrir sér langar nætur fram undan, en okkar góði forseti var fyrst og fremst, held ég, að nota þetta orðalag til að undirstrika að þetta væri eitthvað sem þyrfti að vinna á næstunni.

Ég tók eftir því að því var haldið fram að fjárlagafrumvarpið sem við ræðum núna væri besta fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Þá vil ég segja að það getur nú verið býsna auðveldur samanburður er við skoðum fjárlagafrumvörpin sem hæstv. ríkisstjórn hefur afgreitt frá sér á síðustu árum. Það er kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að þetta sé það besta því að menn eru þá ekki að miða sig við neitt sem er óskaplega gott heldur við fjárlagafrumvörp sem við sjáum að stóðust ekki. Við sáum til dæmis mjög glögglega í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, við fjáraukalagafrumvarpið fyrir árið 2012 hversu gríðarlegur munur er annars vegar á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins eins og það var afgreitt í samanburði við fjáraukalögin og síðan í samanburði við ríkisreikning. Þar er himinn og haf á milli. Það geta auðvitað verið mælskubrögð að segja sem svo: Nú erum við búin að leggja fram fjögur fjárlagafrumvörp og okkur er alltaf að fara fram, okkur er alltaf að takast betur til. Við erum að verða dálítið vanari og kunnum aðeins betur á þetta og þetta er það besta.

Mér finnst miklu eðlilegra að hæstv. ríkisstjórn, ef menn vilja gera raunverulegan samanburð, beri sig saman við myndarlegri og betri tímabil varðandi fjárlögin en beri frumvarpið ekki saman við þær hraksmánir sem fyrri fjárlagafrumvörp hafa verið. Þá sæjum við allt annan veruleika.

Það sem einkennir að mínu mati þetta fjárlagafrumvarp umfram flest annað er að það er eins konar pólitísk fegrunaraðgerð. Þetta er tilraun til þess að sópa vandamálunum undir teppið, fela þau, koma í veg fyrir að menn sjái í raun og veru veikleikana í ríkisfjármálastefnunni sem hefur verið fylgt undanfarin ár. Það er auðvitað ekki þægilegt að standa frammi fyrir því að hafa vaðið mjög óskipulega í niðurskurð gagnvart t.d. velferðarstofnununum á landsbyggðinni, eiginlega látið skeika að sköpuðu, en menn ruku fram með alls konar hugmyndir um niðurskurð á einstökum stofnunum sem gengu síðan engan veginn upp. Fóru meira að segja fram með tillögur um niðurskurð, svo ég taki bara dæmi af heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, sem var þannig að þegar afleiðingar hennar, ef hún yrði samþykkt, voru síðan skoðaðar í velferðarráðuneytinu sem hafði undirbúið útfærslu niðurskurðarins kom í ljós að stór hluti af þeim niðurskurði var að mati velferðarráðuneytisins sjálfs gjörsamlega óframkvæmanlegur, hann gekk ekki upp. Þeir skiptu niðurskurðarhugmyndunum niður í það sem mætti framkvæma, það sem erfitt væri að framkvæma og það sem væri óframkvæmanlegt. Um það bil þriðjungurinn af niðurskurðarhugmyndum sem boðaðar voru í upphaflega fjárlagafrumvarpinu gagnvart heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki var að mati velferðarráðuneytisins, sem þó hafði útfært niðurskurðar- og hagræðingarkröfuna gagnvart þessari stofnun með tilteknum hætti, var óframkvæmanlegur.

Þessi undirbúningur og vinnubrögð gagnvart ekki stærri stofnun þar sem allar upplýsingar liggja fyrir, þar sem þekking til að mynda stjórnenda og starfsmannanna á stofnuninni er til staðar, þar sem eitt lítið símtal hefði leyst málin og getað upplýst ráðuneytið, segja okkur alla söguna. Samt er farið af stað með niðurskurðarhugmyndir sem eru að mati þeirra sömu sem leggja þær fram óframkvæmanlegar.

Það vex ekki mikil tiltrú með mönnum gagnvart svona ríkisfjármálastefnu. Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að þessar niðurskurðarhugmyndir voru illa ígrundaðar og lítt hugsaðar. Það blasir við á annan veginn að þannig sé þetta, bæði í stóru og smáu, og á hinn bóginn hafa verið lögð á stóraukin gjöld bæði á atvinnulífið og einstaklingana í landinu, beinir skattar hækkaðir, alls konar gjöld lögð á til viðbótar, þjónustugjöld sem í raun og veru hafa verið eins konar skattar. Þegar þetta safnast saman; illa útfærður niðurskurður sem hefur skaðað einstakar stofnanir mjög alvarlega og skattahækkanir sem hafa komið niður á almenningi og atvinnulífi og dregið úr hagvexti, aukið verðbólgu og hækkað lán hjá almenningi, liggur auðvitað mjög mikið við hjá hæstv. ríkisstjórn að koma núna fram og segja: Nú erum við búin að ná tökum á þessu. Þetta var óskaplega erfitt, en nú erum við búin að ná tökum á málinu. Nú leggjum við fram besta fjárlagafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. En eins og ég sagði er það kannski ekki sérstaklega glæsileg viðmiðun að bera þetta frumvarp saman við hin fjárlagafrumvörpin eins og þau voru úr garði gerð.

Það er þetta atriði, virðulegi forseti, sem ég ætla að gera að umræðuefni í ræðu minni núna, hvernig haldið er áfram á þessari sömu braut, að sópa vandanum undir teppið. Við vitum til dæmis að stór stofnun eins og Landspítali – háskólasjúkrahús er komin að algjörum þolmörkum í niðurskurðinum. Við heyrum ákall um að mjög þýðingarmikil tæki hafi bilað jafnvel í miðri aðgerð. Við heyrum sögur af því að fársjúkt fólk hafi orðið frá að hverfa af þessari mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsins vegna þess að tæki sem það átti að fara í til skoðunar og meðhöndlunar bilaði í miðjum klíðum eða var bilað þegar röðin kom að viðkomandi sjúklingi. Þetta er auðvitað hörmungarástand.

Við þekkjum þetta líka í löggæslunni víða um land. Ég tek sem dæmi löggæsluna á Vesturlandi sem býr núna við mjög þröngar fjárhagslegar skorður. Auðvitað er öllum ljóst að við svo búið má ekki standa. Þarna er um að ræða vanda sem menn hafa sópað undir teppið í trausti þess að um sé að ræða einhvers konar tímabundna aðgerð og haldið því fram. Þegar við skoðum hins vegar hinar raunverulegu forsendur fjárlaga og stöðu ríkissjóðs er okkur í raun ekki sýnt fram á að þetta verði tímabundnar aðgerðir, ekki með hliðsjón af þeim úrræðum og aðferðum sem núverandi ríkisstjórn fylgir varðandi efnahagsstjórnunina í landinu. Við erum hins vegar búin að skrúfa okkur niður í þetta mikla dý og það verður ekki hægur vandi að koma okkur upp úr því.

Ég ætla í dæmaskyni að nefna nokkur tilvik um það hvernig menn eru í raun að blekkja sig áfram með þessari fjárlagagerð og reyna að búa þannig um hnútana að hægt sé að sýna fram á betri árangur í ríkisfjármálastefnunni en raun ber vitni þegar betur er skoðað.

Það er auðvitað enginn vandi í sjálfu sér að afgreiða fjárlög með tilteknum niðurstöðutölum ef menn sleppa því að taka tillit til veruleikans. Einu sinni var heimspekingur sem rak sig á það í umræðum að það sem hann hélt fram stangaðist á við raunveruleikann. Þegar viðmælandi þessa fræga heimspekings sagði við hann að heimspekikenningar hans og raunveruleikinn væru sitt hvað og stönguðust á, sagði heimspekingurinn þessi frægu orð: Aumingja raunveruleikinn. Ég held að þetta sé svolítið svipað með hæstv. ríkisstjórn, þótt ég vilji nú ekki segja að hún sé heimspekilega þenkjandi á nokkurn hátt. Hún hefur tileinkað sér það hugarfar að þegar raunveruleikinn og hugmyndir hennar stangast á sé það bara vandamál fyrir raunveruleikann.

Það vill nú þannig til að við þennan raunveruleika þarf fólkið í landinu að búa við, og þar breyta engu pólitískar fegrunaraðgerðir í fjárlögum þar sem vandanum er sópað undir teppið, þar sem fjárveitingar eru bersýnilega vanáætlaðar og meira að segja vanáætlaðar þannig að menn vita það. Þegar þetta kemur allt saman sjáum við á hvers konar brauðfótum ríkisfjármálastefna hæstv. ríkisstjórnar stendur og hversu gríðarlegur vandi mun blasa við okkur á næsta ári og mun blasa við þeim stjórnvöldum sem taka við þessu ófrýnilega búi.

Ég nefndi að ég ætlaði að taka nokkur dæmi, ég geri það nokkuð af handahófi. Þetta eru ólík dæmi og ekki endilega stærstu fjárlagaliðirnir heldur liðir sem eru kannski vísbending um það sem við hljótum að gera ráð fyrir að geti verið uppi á teningnum í hinum stærri málum. Þegar um er að ræða tiltölulega litlar stofnanir og tiltölulega afmörkuð verkefni er mjög auðvelt að sjá hvort fjárveitingarnar passi við þann rekstur sem þeim er ætlað að standa undir og þeim viðfangsefnum sem þeim er ætlað að fjármagna og þar fram eftir götunum.

Ég ætla að byrja á Háskólanum á Hólum. Í nefndaráliti hv. meiri hluta fjárlaganefndar er gert ráð fyrir því að hvorki meira né minna en 1,5 millj. kr. bætist við fjárlagalið Háskólans á Hólum. Nú hefði maður ímyndað sér að þessi tala, 1,5 millj. kr., sé fundin þannig að menn hafi skoðað rækilega fjárhagsforsendur skólans, fjárveitingar sem skólanum eru ætlaðir í fjárlagafrumvarpinu, borið það saman við rekstrarmódel skólans, hvernig skólinn er byggður upp, hverjar eru heildartekjur, hver eru heildarútgjöld og komist síðan að þessari niðurstöðu með vísindalegum hætti. Maður ímyndar sér að úr því þarna er lögð til upphæð upp á 1,5 millj. kr., en ekki t.d. 1 millj. kr. eða 2 millj. kr., sé eitthvað á bak við hana. Er það þannig? Var það þannig að Háskólinn á Hólum þyrfti á að halda 1,5 millj. kr. til þess að geta rekið sig eðlilega? Nei, virðulegi forseti, því er aldeilis ekki að heilsa.

Varðandi rekstur Hólaskóla vil ég taka fram að í rekstraráætlunum sem skólinn hefur lagt fram er gert ráð fyrir algjörlega óbreyttri umgjörð í rekstri skólans. Það er ekki verið að leggja upp með nýjar skuldbindingar eða áform um breyttan eða aukinn rekstur. Ekki eru lagðar til hugmyndir um fjárfestingar og ekki gert ráð fyrir því heldur, sem þó hefur verið hluti af rekstri skólans, að annast með einhverjum hætti staðarhaldið á þessum helga stað, Hólum í Hjaltadal. Þetta er með öðrum orðum algjör grunnþörf. Hver er upphæðin sem þarf til að hægt sé að reka skólann eins og hann er rekinn í dag, hver er talan? Er hún eitthvað nálægt 1,5 millj. kr.? Er hún kannski 2,5 millj. kr. eða 3,5 millj. kr.? Nei, virðulegi forseti. Fjárvöntun Hólaskóla á næsta ári miðað við fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir er 65 millj. kr.

Skoðum nú aðeins samhengið. Fjárveiting til Hólaskóla af fjárlögum ríkisins — þá er ég ekki að tala um sértekjur skólans sem hann aflar sér með öðrum hætti — er 264 millj. kr. Þá vantar í rekstur Hólaskóla til þess að hann geti rekið sig eins og hann er rekinn á þessu ári og stjórnendur skólans hafa gert ráð fyrir að geta rekið hann á næsta ári 65 millj. kr., eða 25%. Það skeikar ekki nema 25%. Við erum hér ekki að tala um einhverja gríðarlega stóra stofnun þar sem menn hafi ekki yfirsýnina. Menn hafa yfirsýnina. Ríkistekjur skólans eru 264 millj. kr. Það vantar 65 millj. kr., 25%. Það er ekki skekkja nema upp á 25%. (Gripið fram í.)

Og fyrst svo er um hið græna tréð, eins og þar segir, hvað með allt hitt? Hvað með allar stóru stofnanirnar þar sem kannski er erfiðara að hafa yfirlit yfir alla hluti, þótt ég sé ekki að gera lítið úr möguleikum manna til fjárstýringar í stórum stofnunum? Það sjá allir í hendi sér að það getur varla verið einfaldara en þetta að halda utan um og sjá hvernig reksturinn gengur með svona afgreiðslu af hálfu ríkisins.

Með þessari fjárlagaafgreiðslu er í raun verið að leggja til, ef ekki kemur annað til, að skólinn endi í fullkomnu öngstræti. Fjárveitingarnar til Hólaskóla duga á næsta ári samkvæmt fjárlagatillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur kvittað upp á til þess að reka skólann út septembermánuð. Ef skólinn á að fara eftir fjárlögunum, ef þetta verða fjárlögin og skólinn á að fara eftir þeim, verður þar að vera allt lok, lok og læs 1. október, það er bara þannig. Það hlýtur að blasa við stjórnendum skólans að þurfa að taka afstöðu til þess hvort hætta eigi að taka inn nemendur á næsta hausti.

Þetta er nú öll ábyrgðin. Þetta er öll samfélagslega ábyrgðin. Þetta er hugur hæstv. ríkisstjórnar til þessarar mikilvægu menntastofnunar í Skagafirði. Ætla menn virkilega að ganga frá fjárlögunum hvað varðar þessa tilteknu skólastofnun þannig að 25% vanti upp á að hægt sé að reka hana á næsta ári? Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, að það verði niðurstaðan.

Það er mjög sérkennilegt þegar við erum komin í 2. umr. fjárlaga og stjórnarliðar væla og kvarta og kveina undan því að mál séu rædd að svona sé gengið fram og um hnútana búið í fjárlagagerðinni. Það er með ólíkindum að við séum komin í 2. umr. fjárlaga með mál af þessu tagi sem varða þessa litlu en mikilvægu stofnun.

Ég ætla að taka annað dæmi. Bifröst er skóli sem hefur byggst upp mjög hratt á undanförnum árum. Hann gegnir miklu hlutverki og hefur tekið við nemendum víða að af landinu. Hann hefur mátt þola súrt og sætt og ýmislegt má örugglega gagnrýna úr forsögu skólans, en staðreyndirnar sem skólinn stendur núna frammi fyrir er að hann vantar hygg ég um 60, 70 millj. kr. til að geta rekið sig á næsta ári. Sjáum við glytta í tillögur um það í fjárlagafrumvarpinu? Er eitthvað um það í fjárlagatillögum meiri hluta fjárlaganefndar? Sjáum við einhverjar tillögur um að bregðast sérstaklega við gagnvart Bifrastarskólanum? Nei, því er heldur ekki að heilsa. Þetta mál er líka látið sigla sinn sjó. Menn láta eins og hér sé ekkert á seyði og fjárlagatillögur varðandi Bifrastarskólann séu fullkomnar, þetta sé bara allt í lagi.

Hér er þó gríðarlega mikið í húfi. Háskólinn á Bifröst hefur útskrifað um árabil mun fleiri nemendur en skólinn hefur fengið greitt fyrir. Skólinn metur það svo að þetta nemi um 200 millj. kr. á núvirði eftir að tekið hefur verið tillit til nemendafækkunar síðustu tveggja ára. Skólinn hefur eins og við vitum um langt árabil ekki fengið greidd sambærileg framlög og aðrir háskólar fyrir rannsóknir sínar. Hann hefur sýnt fram á að hann hafi ekki fengið sambærilega meðhöndlun og margir aðrir háskólar í landinu, og eru þeir þó örugglega ekki ofsælir af sínu. Eftir því sem ég kemst næst er Háskólinn á Bifröst því sem næst eini háskólinn sem hefur ekki fengið neina aukafjárveitingu eftir hrun.

Er nokkur furða þó að bæði stjórnendur skólans, nemendur, kennarar og ekki síður samfélagið í Borgarfirði, sem á mjög mikið undir því að rekstur þessa skóla geti gengið vel fyrir sig, upplifi þetta sem einhvers konar skilaboð frá hæstv. ríkisstjórn? Og ekki síður skilaboð frá hv. stjórnarliðum því að ríkisstjórnin ein og sér gerir ekki neitt upp á sitt einsdæmi. Hún sækir vald sitt til þeirra hv. þingmanna sem styðja hæstv. ríkisstjórn og standa að baki fjárlagafrumvarpinu, eru stuðningsmenn þess að fjárlögin gangi fram eins og boðað er, annars vegar í fjárlagafrumvarpinu og núna með afgreiðslu meiri hluta fjárlaganefndar á einstökum fjárlagatillögum.

Þess vegna er ekkert óeðlilegt nema síður sé, það er eðlilegt og rökrétt að upplifa það þannig að meðhöndlun hæstv. ríkisstjórnar og hv. stjórnarliða, m.a. þingmanna Norðvesturkjördæmis, á Háskólanum á Bifröst sé einhvers konar skilaboð um að skólinn njóti ekki stuðnings til áframhaldandi starfsemi, a.m.k. ekki af þeirri stærðargráðu sem hann hefur staðið fyrir á undanförnum árum.

Ég vil vekja athygli á því að fyrir utan að vera mjög mikilvæg háskólastarfsemi í landinu er skólinn vegna staðsetningar sinnar mjög mikilvægur fyrir samfélagið í Borgarfirði og fyrir Vesturland. Fjöldi íbúa á Bifröst er núna um 400. Í grunnskólanum á Varmalandi sem Borgarbyggð að sjálfsögðu rekur eru 110 börn, þar af búa 60 á Bifröst. Í leikskólanum Hraunborg á Bifröst eru 54 börn sem eru flest búsett á Bifröst. Við Háskólann í Bifröst starfa að jafnaði 65 starfsmenn í 52 stöðugildum, auk annarra verktaka sem selja þjónustu sína, bæði sem kennarar og aðra þjónustu til háskólans. Á árinu 2011 fengu 187 verktakar greiðslu frá háskólanum.

Skólinn er í miklum fjárhagslegum þrengingum. Hann skuldar Byggðastofnun 90 millj. kr., auk þess sem Byggðastofnun er í ábyrgð fyrir 73 millj. kr. láni frá Norræna fjárfestingarbankanum.

Með öðrum orðum, ef ekki verður brugðist við lendir skólinn í vandræðum með að standa undir þessum skuldbindingum og auðvitað fyrst og fremst skuldbindingum gagnvart nemendum sínum. Hér er um að ræða grafalvarlegt mál. En eins og ég fór yfir áðan varðandi Háskólann á Hólum er eins og menn setji bara kíkinn fyrir blinda augað, þeir láta eins og ekkert sé, þetta sé bara allt í lagi. Þetta er alls ekki viðunandi. Við hljótum að kalla eftir því að hæstv. menntamálaráðherra, sem ég vil trúa að hafi einlægan áhuga á því að byggja upp og viðhalda þessari starfsemi, hafi frumkvæði eins og henni ber skylda til sem eins konar gæslumaður skólahaldsins í landinu að bregðast við með einhverjum hætti þegar svona er komið fyrir tveimur háskólum, annars vegar á Bifröst, hins vegar að Hólum, og á ég nú þann þriðja eftir ótaldan en það er Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

Eins og við vitum hefur Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri að mörgu leyti mikla sérstöðu. Þegar hann var stofnaður á sínum tíma sem háskóli fékk hann í tannfé heila rannsóknarstofnun sem var Rannsóknastofnun landbúnaðarins, RALA. Þetta var auðvitað gríðarlega mikilvægt og hefur síðan komið fram í því að þessi háskóli, eins og raunar líka Hólaskóli og auðvitað fleiri háskólar, hefur fengið mjög gott faglegt mat sem er framkvæmt á þessum skólum. Það er ómetanlegur styrkur fyrir einn háskóla að hafa fengið nánast í tannfé heila öfluga alþjóðlega vísindastofnun sem RALA sannarlega var og er í dag áfram alþjóðleg vísindastofnun undir merkjum landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Það starf sem þarna er rekið er ómetanlegt og skiptir miklu máli.

Nú ætla ég ekki að draga neina dul á að vandi skólans er býsna gamall og það á við um fleiri skóla. Þegar skólinn var fluttur úr landbúnaðarráðuneytinu yfir í menntamálaráðuneytið, sem ég tel í sjálfu sér hafa verið eðlileg aðgerð, átti að skoða starfsumhverfi skólans heildstætt eins og annarra skóla. Hins vegar hafði þessi skóli þá sérstöðu að hann hafði þann bakgrunn sem RALA sannarlega var, hryggjarstykki fyrir skólann. Þá var gert ráð fyrir samningi milli þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og skólans þar sem skólinn fengi tiltekna upphæð, ég held að hún hafi verið á þeim tíma 150 eða 160 millj. kr., á ári til að tryggja það að skólinn gæti áfram gegnt því hlutverki sínu sem hann hafði axlað með því að RALA varð hluti af háskólanum, hann gæti gegnt því hlutverki sínu að vera rannsóknarstofnun fyrir landbúnaðinn og tengdar greinar. Þetta er samningur sem hljóðar núna upp á 160 millj. kr. og rennur út um áramótin. Það blasir við að mjög brýnt er að koma þeim málum í farveg til framtíðar. Það getur ekki verið þannig að skólinn geti ekki verið viss um að fjárveitingin skili sér til þessa verkefna. Það mundi hafa mjög alvarleg áhrif fyrir möguleika skólans til að standa undir nauðsynlegum rannsóknum.

Skólinn varð fyrir miklu áfalli á sínum tíma þegar fjárveitingar til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins voru skornar niður. Mig minnar að sú upphæð sem skólinn varð af til rannsókna hafi numið um 15 millj. kr. á ári sem er heilmikil upphæð fyrir starfsemi af þessu taginu. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta sé gulltryggt.

Fjárhagsstaða skólans hefur verið mjög erfið frá stofnun hans 2005. Hann lagði af stað með halla og húsnæðið var í slæmu ástandi. Hann hafði starfsemi sína á nokkrum stöðum. Ofan á þetta hefur síðan bæst niðurskurður eins og hjá öðrum stofnunum ríkisins. Hins vegar var það þannig að á árinu 2007 kom inn sérstök upphæð, 70 millj. kr., til að rétta af stöðu skólans. Síðan þá eða á síðustu þremur árum hafa fjárheimildir til skólans verið skornar niður aftur um 130 millj. kr. Þannig að við getum sagt að þær 70 milljónir sem skólinn fékk á árinu 2007 til að rétta af sinn hlut hafi verið teknar af honum og ekki einu sinni heldur tvisvar í formi niðurskurðar.

Það hafa staðið yfir látlausar viðræður við stjórnvöld og þær viðræður hafa á mörgum tímapunktum gefið til kynna að staðan yrði lagfærð, en af því hefur hins vegar ekki orðið. Búið er að beita öllum ráðum til þess að breyta rekstri, hætta verkefnum, leggja niður störf og spara á margan hátt, en nú verður auðvitað ekki mikið lengra gengið nema farið verði í mjög róttækar ráðstafanir sem gætu falið í sér að leggja niður einstakar deildir og þar fram eftir götunum. Það er verið að skoða möguleika á því að leggja niður einstakar starfsstöðvar og færa starfsemina meira saman, en jafnvel það mundi út af fyrir sig ekki leysa fjárhagsvanda skólans, þannig að við erum að tala um grafalvarlegt mál.

Virðulegi forseti. Ég ákvað að taka þessi þrjú dæmi um háskólastarfsemi í landinu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn gumar af því að hún vilji efla það sem hún hefur kallað þekkingarsamfélagið, hinar skapandi greinar er stundum talað um, sem hæstv. ríkisstjórn boðar til dæmis í sérstakri fjárfestingaráætlun að eigi að efla. Í þeirri fjárfestingaráætlun er lagt af stað með ýmis ný fjárfestingarverkefni af margs konar toga, m.a. á menningar- og menntasviðinu sem allar eru örugglega góðra gjalda verðar, ég ætla ekkert að gera neitt líti úr því í sjálfu sér. En það skýtur samt sem áður skökku við að á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn býr til svona skóflustunguaðferðir fyrir sjálfa sig varðandi nýjar stofnanir, nýjar byggingar og nýjar fjárfestingar, skuli vera staðið þannig að málum gagnvart þessum þremur mikilvægu háskólastofnunum, sem hafa sannað og sýnt fram á tilverurétt sinn, að þær séu komnar undir brot og slit, að þær þurfi í einhverjum tilvikum að taka ákvörðun um það núna bak áramótum hvort heimila eigi að heimila innritun á næsta skólaári. Á smám saman að láta viðkomandi stofnanir deyja drottni sínum?

Ég verð að segja eins og er að þetta er mjög óábyrg stefna. Ég hef skilning á því að ríkissjóður sé ekki aflögufær um þessar mundir. Við sjáum það að fjögurra ára þrautaganga hæstv. ríkisstjórnar hefur skilað því að núna erum við að borga hærri vexti úr ríkissjóði en við gerðum við upphaf þessa kjörtímabils.

Hæstv. velferðarráðherra sem flytur yfirleitt nokkurn veginn sömu ræðu um stöðuna í ríkisfjármálum hefur stundum talað um að það sé svo mikilvægt að ná tökum á ríkisfjármálum vegna þess að þá getum við breytt vöxtum í velferð, hætta að borga lánardrottnum vexti en staðið undir öflugri velferð. Þetta er alveg rétt. Auðvitað er það verkefni okkar að ná utan um ríkisfjármálin. En erum við að gera það? Erum við að breyta vöxtunum í velferð? Ekki er hægt að sjá það.

Árið 2010 voru vaxtagjöld ríkisins 68 milljarðar. Þau lækkuðu aðeins í fyrra, fóru niður í 66 milljarða og verða á þessu ári 77 milljarðar kr., hækkuðu um 11 milljarða milli ára. Þau verða síðan samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 84 milljarðar kr. á næsta ári, hafa sem sagt hækkað úr 68 milljörðum í 84, um hér um bil 20 milljarða á þessu tímabili. Vaxtatekjurnar á næsta ári eru áætlaðar 21 milljarður kr., vaxtagjöldin 84 og neikvæður vaxtajöfnuður 63 milljarða kr., sem er veruleg hækkun frá því sem var í fyrra. Við sjáum það því ekki gerast núna að verið sé að breyta vöxtum í velferð. Það er þvert á móti verið að breyta velferð í vexti. Það er allur árangurinn af öllu þessu umstangi ríkisins.

Við höfum fylgst með vegferð hæstv. ríkisstjórnar sem byrjaði með skattahækkunum, hélt áfram með ómarkvissum niðurskurði, hélt enn áfram með þeim hætti sem við sjáum aftur birtast okkur í fjárlagafrumvarpinu, að verið er að sópa vandanum undir teppið, og heldur enn áfram með því að hækka enn á ný hvers konar álögur á landsmenn. Er þetta ekki að verða fullreynt? Er ekki að verða ljóst að þessi ríkisfjármálastefna gengur ekki? Verðum við ekki að fara að breyta um kúrs? Verður hæstv. ríkisstjórn ekki að fara að horfast í augu við það að henni hefur mistekist það sem hún ætlaði sér? Hún hefur ekki breytt vöxtum í velferð. Hún er hins vegar alla daga upptekin við að breyta velferð í vexti.