141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[15:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Vandi Íbúðalánasjóðs á sér tvennar rætur, annars vegar er greiðsluvandi heimilanna, atvinnuleysi og annað slíkt, og það er minni vandinn. Svo er það vaxtalækkun og það er stóri vandinn. Á hann benti ég 2004, en menn litu þannig á að vextir mundu aldrei lækka svo mikið.

Af hverju lækka vextirnir? Vegna þess að hér er mikil svokölluð snjóhengja, gífurlega mikið af krónum í gangi og það lækkar kerfisbundið vextina þannig að þeir voru komnir um mitt ár 2009 niður í 4%. Þá áttu menn að kveikja á perunni. Svo fóru þeir niður í 1% um mitt þetta ár, eru nú eilítið hækkandi, í 2%, en maður spyr sig: Af hverju gerði ríkisstjórnin ekki neitt á miðju ári 2009 þegar menn sáu að vextirnir voru að lækka? Af hverju hefur ekki verið beitt uppgreiðslugjaldi, sem er heimilt, af hverju var ekki látið reyna á heimildina? Það stendur í lögunum.

Hvað er til ráða? Ég held að vandinn sé mikill og svo stórlega vanmetinn að við verðum að skipta Íbúðalánasjóði upp, taka núverandi rekstur, láta kröfuhafana eiga við það, stofna nýjan íbúðalánasjóð sem lánar félagsleg lán fólki sem ekki getur keypt íbúðir með venjulegum kjörum, fólki á svæðum þar sem ekki er hægt að fá lán vegna þess að það er ekki endursölumarkaður á þeim svæðum. Þannig mundum við búa til íbúðalánasjóð sem yrði margfalt minni, kannski einn fimmti eða einn þriðji af núverandi Íbúðalánasjóði.

Við verðum að fara að skoða hvar við erum að veita ríkisábyrgðir. Það er úti um allt og það er krafa að við skoðum þetta. Ríkissjóður á ekki að styrkja fólk sem er með háar tekjur og getur fengið lán og getur ráðið við þau á svæðum þar sem auðvelt er að selja íbúðir. Það er ekki styrkjaþurfi. Svo eru hins vegar mjög margir, m.a. leigjendur, sem þurfa virkilega styrk (Forseti hringir.) og við eigum að einbeita okkur að þeim hópum.