141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað fagnaðarefni að þessi vinna skuli vera farin af stað og mjög mikilvægt að við í þinginu höldum okkur við staðreyndir málsins. Ég get tekið undir það að við eigum ekki að fara að fagna hér einu eða neinu fyrr en við höfum hlutina í hendi. Það er til dæmis alls ekki fyrirsjáanlegt hvort olían verði vinnanleg. Það er alls ekki fyrirsjáanlegt hvað slík vinnsla mundi geta gefið þjóðinni. Það er ekki eins fyrirsjáanlegt og ef við hefðum t.d. ákveðið að taka næstu skref í atvinnusköpun í þeirri rammaáætlun sem við afgreiddum um daginn og hefðum getað haldið áfram í þeim vettvangi. Það er fyrirsjáanlegt. Fyrirsjáanlegt er að það hefur engin umhverfisleg áhrif í för með sér að reisa til dæmis eina vatnsaflsvirkjun í neðri hluta Þjórsár, eða tvær til viðbótar. Það fer miklu frekar vel með umhverfið og er í fullu samræmi við allar umhverfisvænar stefnur. (Gripið fram í: … olíunni?)

Það er mikilvægt að við tölum skýrt, virðulegi forseti. Búið er að gera þessa samninga við þá aðila sem um ræðir. Hámarkstími til rannsókna er 16 ár. Hámarkstími til vinnslu er 30 ár. Þetta eru staðreyndir sem koma fram í þeim samningum. Það er því ekki hægt að tala eins og sumir hæstv. ráðherrar Vinstri grænna hafa gert, hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði að ekki yrði farið í vinnslu eftir þær rannsóknir sem nú er verið að fara í gang með. Auðvitað liggur það fyrir að farið verður í vinnslu ef við finnum olíu í vinnanlegu magni. Það er ekki hægt að tala eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra talar að markmiðið sé að kanna hvort auðlindin sé fyrir hendi, það er auðvitað ákveðið markmið í þessari vinnu. En ef auðlindin er fyrir hendi og hún er í vinnanlegu magni þá förum við að sjálfsögðu í olíuvinnslu.

Það er mjög mikilvægt gagnvart því alþjóðaumhverfi sem við störfum í varðandi atvinnuuppbyggingu í landinu og þeirri brýnu þörf sem við höfum fyrir beina erlenda fjárfestingu til að byggja hér upp mannvænlegt samfélag að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali skýrt í þessum málum en séu ekki alltaf að draga upp einhverjar efasemdir, einhverja þokukennda framtíðarsýn, þegar kemur (Forseti hringir.) að beinni erlendri fjárfestingu í atvinnulífi okkar.

Það verður að fara að tala skýrt, virðulegi forseti, og fólk verður að kannast við það hjá hæstv. ríkisstjórn hvað það hefur skrifað undir.