141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:50]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sú sem hér stendur var starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar þegar málið kom þangað og síðan tók hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson við formennsku. Þingmaðurinn Mörður Árnason er framsögumaður málsins og ég veit að allir þessir þrír aðilar hafa lagt sig mjög fram um að mæta velflestum tækum sjónarmiðum sem fram hafa komið til ábendingar um það sem betur mætti fara. Ég efast ekki um að það sé vilji til þess að taka frumvarpið inn milli 2. og 3. umr. ef það má verða til þess að leysa einhvern ágreining. Málið er mjög mikilvægt og við getum ekki dregið von úr viti að afgreiða þessa heildarlöggjöf.

Aðeins vegna gagnrýni þingmannsins í sambandi við björgunarsveitaræfingar og akstur landbúnaðartækja vil ég geta þess að býsna vel er um það mál fjallað í 31. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er heimilt, ef nauðsyn krefur, (Forseti hringir.) að aka vélknúnum ökutækjum utan vega vegna lögreglustarfa, sjúkraflutninga og björgunarstarfa.“ Jafnframt er tekið fram (Forseti hringir.) að ráðherra hafi heimild til að setja nánari reglugerð þar um.