141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[16:14]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við eigum að ljúka þessu máli núna, ég tel að það sé tilbúið til afgreiðslu. En eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar áðan er það með þessi lög eins og önnur mannanna verk að þau eru ekki helgidómar. Lögum þarf að breyta í fyllingu tímans eftir því sem reynslan kennir okkur og bendir okkur á ýmislegt sem betur mætti fara. Það er svar mitt við þeim hluta spurningar þingmannsins.

Þingmaðurinn vakti réttilega athygli á því að nefndarálitið er mjög ítarlegt og breytingartillögurnar allmargar. Það er einmitt vegna þessarar samráðshlustunar sem hefur átt sér stað í vinnu frumvarpsins. Þetta er eins og þegar eggið kemur út úr hænunni, maður sér ekki mikið gerast en svo kemur eitthvað á einhverju augnabliki. Þetta frumvarp er eggið sem er komið í hreiðrið. Margt hefur gerst, mörgu verið breytt og komið til móts við mörg sjónarmið.

Þingmaðurinn vakti athygli á aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga að ýmsu sem lýtur að framkvæmd laganna og þá langar mig aðeins að nefna að í 16. gr. frumvarpsins er til dæmis gert ráð fyrir ráðgjafarnefnd og fagráði náttúruminjaskrár. Í þeirri nefnd er beinlínis gert ráð fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi þrjá fulltrúa þannig að það er ekki eins og það sé verið að sniðganga stóra hagsmunaaðila í samráði, a.m.k. ekki vísvitandi.