141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Sigfús Karlsson (F):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þau orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um þetta skaðræðis — ég veit ekki hvað skal segja, þessa undirskrift og sölu á landi í Vatnsmýrinni. Mér finnst hreint með ólíkindum að Samfylkingin í ríkisstjórn skuli hafa selt Samfylkingunni í borgarstjórn þetta land með því … (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn líka.) Nei, það var ekki þannig, hv. þm. Helgi Hjörvar.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtöl við ræðumann.)

Ég tel að þessi gjörningur í gær úti á flugvelli, mjög smekklaus að mínu mati, sé sorgargjörningur fyrir landsbyggðarfólk.

Mig langar aðeins til að segja frá tölunum um þá fólksflutninga sem fara á milli flugvalla Akureyrar og Reykjavíkur. Heildarfólksflutningar á síðasta ári á þjóðvegi 1 og með flugi voru tæplega 450 þús. farþegar, bara á milli þessara tveggja sveitarfélaga. Rétt rúmlega 40% þeirra ferðuðust með flugi eða um 188 þús. farþegar milli Akureyrar og Reykjavíkur á síðasta ári. Þessar tölur hefur Njáll Trausti Friðbertsson, varabæjarfulltrúi Akureyrar, fengið gefnar upp og hann skrifaði um þetta ágæta grein í Vikudag í gær. Ég ætla að fá að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Því má öllum vera það fullljóst að mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni er Akureyringum, Eyfirðingum, Norðlendingum, landsbyggðarfólki og að mínu viti öllum Íslendingum mikilvægur. Ef flugvöllurinn í Vatnsmýri yrði lagður niður og innanlandsflugið eða það sem væri eftir af því flutt til Keflavíkurflugvallar (Forseti hringir.) mundi það stuðla að enn frekari einangrun stórra landsbyggðarsvæða, skapa öryggisleysi með tilliti til verra aðgengis að stærsta og best búna sjúkrahúsi landsins.“