142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tvenn rök hafa verið notuð til stuðnings þessu frumvarpi. Annars vegar að þetta sé lýðræðisleg breyting og hins vegar breyting í átt til gagnsæis. Mér finnst leiðinlegt að þurfa að fræða hæstv. menntamálaráðherra um eðli lýðræðis en í lýðræðishugmyndum almennt er jafnan talað um þrískiptingu eða jafnvel fjórskiptingu valdsins. Það er löggjafarvaldið, dómsvaldið, framkvæmdarvaldið og síðan fjórða valdið, sem eru fjölmiðlar. Hlutverk fjölmiðla í þessari pælingu um fjórveldi er að þeir séu gagnrýnir á stjórnvöld. Það er ekki átt við að fjölmiðlar séu lýðræðislegir í þeim skilningi að þeim eigi að vera stjórnað af meiri hluta þings. Það er fáránlegt, með fullri virðingu, virðulegi forseti. Það er algjörlega á skjön við allar lýðræðislegar hugmyndir um eðli og starf fjölmiðla.

Það að kalla breytinguna lýðræðislega sýnir lítið annað en einhvers konar vanskilning á efninu. Ef hæstv. menntamálaráðherra hefði ætlað sér að gera ferlið gagnsærra hefði hann getað mælt fyrir um að hafa t.d. opnar fundargerðir eða eitthvað því um líkt, sé það enn þá gert. Þá mætti t.d. hafa upptökur, ýmist hljóð- eða myndupptökur eða hvort tveggja af fundum. Ýmislegt slíkt er hægt að gera í þágu gagnsæis en það er ekki gagnsætt heldur skammarlegt að stjórnmálavæða fjölmiðil, fjórða valdið. Það væri hlægilegt ef það væri ekki svona sorglegt.

Eitt sem mér finnst sorglegra en þetta er að maður tekur eftir því að stjórnarliðar virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessari umræðu. Í það minnsta hafa þeir ekki tekið mikinn þátt í því að reyna að koma með fleiri rök fyrir þessari breytingu, vegna þess að þau hljóta að vera til, er það ekki? Þau hljóta að vera til en þau heyrast ekki.

Það virðist vera óumdeilt að þingmenn vilji fjölbreytt val á fólki í stjórn RÚV. Allt í lagi, þá hefði verið hægt að koma með fleiri hugmyndir í þeim efnum og ganga lengra í þá átt sem var farið í núna í vor. Það hefði mátt stinga upp á Blaðamannafélagi Íslands eða Hinu íslenska bókmenntafélagi eða einhverjum fleiri félögum eða aðilum sem koma að menningu og fjölmiðlastarfi á Íslandi til þess að taka þátt í útnefningu á stjórn. En að lýðræðisvæða hana með því að setja inn pólitísk áhrif er á skjön við lýðræðið. Það er andlýðræðislegt ef eitthvað er. Það verður eiginlega ekki mikið andlýðræðislegra. Maður gæti spurt hæstv. menntamálaráðherra: Í hvaða löndum ákveða stjórnmálamenn hvernig fjölmiðlun sé háttað? Hvern langar að nefna þau lönd? Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera það af virðingu við þingið og hæstv. menntamálaráðherra.

Þegar kemur að því hvort núverandi stjórn sé einhvers konar ógn við ritstjórnarlegt sjálfstæði þá er ég svolítið sammála því að það sé óviðeigandi umræða að tala um þá stjórnarmenn sem sitja nú, mér finnst það óviðeigandi, en mig langar samt til að svara spurningunni og svarið er: Ég veit það ekki. Ég veit ekkert um það hvernig aðkoma núverandi stjórnar er að fjölmiðlaumhverfinu en ég veit að ef ég væri blaðamaður hjá Ríkisútvarpinu mundi ég ekki vilja spyrja mig þeirrar spurningar enda ætti þess ekki að þurfa.

Leiðin í lýðræðisátt er lengra í áttina að því sem var gert hér í vor með núgildandi lögum. Leiðin að meira gagnsæi er sú að auka aðgengi að fundargerðum og ákvarðanatöku almennt. Þannig fer maður í átt til lýðræðis, í átt til gagnsæis. Þetta er ekki lýðræði. Þetta er pólitík og til skammar.