142. löggjafarþing — 13. fundur,  25. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[18:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál verði afgreitt í dag. En ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni sem kom hér upp áðan og gaf það í skyn að málið væri flutt undir ákveðnu yfirskini, flýtimeðferðin er víst eitthvert yfirskin. Ég tek ekki undir það og tel að þá sé nú frekar lítið gert úr tilgangi frumvarpsins og úr þeim umsögnum sem komu víða að þar sem flestir þeir sem gleggst til málanna þekkja taka undir mikilvægi og nauðsyn þess að gera þetta með þessum hætti, með flýtimeðferð, sem tryggt getur þeim sem á þurfa því að halda betri stöðu en þeir áður hafa haft.

Ég ítreka það sem ég sagði þegar málið var flutt í upphafi: Í því felst enginn áfellisdómur yfir þeim sem á undan fóru. Í því felst einungis tilraun okkar í ríkisstjórninni og meiri hluta þings greinilega til þess að tryggja að þessir einstaklingar fái flýtimeðferð sem þurfa á því að halda. Ég hafna því að það sé eitthvert yfirskin. Hér er verið að reyna að tryggja það að málsmeðferð verði hraðað. Allflestir sem gáfu umsögn um málið taka undir það. Að vísu er það rétt sem nefnt hefur verið að einhver ágreiningur hefur verið uppi um hvar best væri að koma því fyrir í lögum. En ég ítreka þakkir til nefndarinnar fyrir að klára málið með þessum hætti.