143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir hvetjum við í Bjartri framtíð til þess að við förum í fjárlagavinnuna með opnu hugarfari og reynum að nálgast stóra útgjaldaliði og smáa í rauninni eins og autt blað, þ.e. hvað gerum við núna? Og líka með ákveðna forgangsröðun í huga. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Ég held að það sé mikið svigrúm í ríkisrekstrinum til að fá meira fyrir peninginn. Það var skrifuð ágæt skýrsla af McKinsey um þetta, að framleiðnin í landbúnaðarkerfinu til dæmis væri mjög slæm. Það er hægt að nota opinberan stuðning til að skapa miklu fjölbreyttari störf sem skapa okkur í raun og veru meiri virðisauka og tekjur eins og í hugverka- og tækniiðnaði. Þetta er einfaldlega spurning um opna umræðu og hvað við viljum gera. Þetta er of mikið að mínu mati, eins og hv. þingmaður orðaði það áðan, heilagar kýr.

Við þurfum til dæmis líka að ræða hvað miklir fjármunir fara til Ríkisútvarpsins. Er eðli fjölmiðla að breytast þannig að við þurfum að endurskoða þetta og kannski beina þessum fjármunum meira til framleiðslu á innlendu efni?

Við hvetjum einfaldlega til þess að við förum yfir allar þessar spurningar algerlega fordómalaust. Við verðum að átta okkur á því að við erum hér að fjalla um skattfé almennings og því verður að verja vel.

Varðandi gjaldtökuna aftur þá vil ég ítreka það að við förum í þetta í heild sinni. Það sem vakti mig mjög til umhugsunar í þessu var þegar ég sá reikninginn sem manneskja sem fékk krabbamein þurfti að borga Landspítalanum. Hún var aldrei lögð inn en reikningurinn var himinhár. (Forseti hringir.) Ef við erum sammála um að lækka hann, þá erum við sammála.