143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Næsta skref varðandi þjónustustýringuna sem maður sér fullnustað er þessi gagnvirka vefsíða sem við munum setja upp í tengslum við og jafnhliða þessu verkefni sem snýr að einum samræmdum vaktsíma fyrir alla heilsugæsluna í landinu allan sólarhringinn. Það mun leiða til þess að notendur heilbrigðisþjónustu munu fá samband við heilbrigðisstarfsmenn sem eru sérmenntaðir í því að leiðbeina fólki rétta leið í þessu kerfi og stýra því hvar það ber niður ef það þarf að eiga frekari viðskipti við íslenska heilbrigðisþjónustu. Í framhaldinu munum við síðan í tengslum við þetta verkefni reyna að búa til verkferla fyrir þessa stýringu sjúklinga á milli þessara þriggja „starfsstöðva“ frá heilsugæslu til sérfræðinga og sjúkrahúsa. Þetta eru næstu áfangar í þessum efnum.

Varðandi sameiningu og breytingar í heilsugæslunni erum við að reka á höfuðborgarsvæðinu 17 stöðvar, þ.e. ríkið greiðir fyrir þær. Við erum með yfirstjórnendur og millistjórnendur á hverri einustu stöð. Hvað er því til fyrirstöðu fyrir notendur heilsugæslunnar í höfuðborginni að ein sameiginleg yfirstjórn sé yfir þrem eða fjórum stöðvum? Af hverju þarf endilega að vera stjórnendalag í hverri einustu heilsugæslustöð? Þetta eru þættir sem við eigum skilyrðislaust að skoða. Ég er að efna til undirbúnings á því.

Ég nefndi hér úttektina frá árinu 2008, samanburðinn við Salastöðvarmódelið. Það eru vissulega stöðvar á höfuðborgarsvæðinu sem vinna með álíka afköstum og gæðum.