143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:35]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég geri ráð fyrir að við hæstv. ráðherra séum sammála um það eins og flestir þingmenn að fjárþörfin í velferðarkerfinu og helstu innviðum hins opinbera, í vegakerfinu og í menntakerfinu, er gríðarleg eftir mikinn niðurskurð undanfarinna ára og þótt maður mundi bara tala um nauðsynleg viðhaldsverkefni og uppbyggingarverkefni til að koma í veg fyrir aukinn kostnað á komandi árum yrði fjárþörfin samt mjög mikil og væri þá jafnvel ekkert talað um að bæta þjónustuna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort mat hafi farið fram í vinnu við gerð þessara frumvarpa á því hvort betra væri til langs tíma að nota t.d. þá 5 milljarða sem fara í 0,8% lækkun á tekjuskatti, sem skilar sér í nokkur hundruð kr. á viku til meðalmanns, til að fara í þessi nauðsynlegu uppbyggingarverkefni og viðhaldsverkefni eða hvort slíkt mat hafi ekki farið fram. Ef slíkt mat hefur farið fram langar mig til að heyra hvernig hæstv. ráðherra rökstyður þetta val vegna þess að ef ekki er farið í nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu vex sá kostnaður til langs tíma.

Svo er annað sem vekur athygli mína. Í raun og veru er þessi lækkun á tekjuskatti fjármögnuð með hækkun á öðrum skatti sem er auðsýnilega tímabundinn, þ.e. skattur á þrotabúi gömlu bankanna. Við vonumst öll til að þau þrotabú verði ekki ævarandi. Það er tímabundin tekjuöflun. Er skynsamlegt að nota tímabundnar tekjur til að lækka tekjuskatt sem er varanlegri tekjustofn? Hvernig gengur það upp til langs tíma? Aftur: Hefði þá ekki verið skynsamlegra að nota tímabundnar tekjur til að fara í nauðsynlegar fjárfestingar þó ekki væri nema bara á viðhaldi og nauðsynlegri uppbyggingu?