143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var kyndug ræða atarna, að umræðurnar um fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvörpin sem hér eru undir fari fram án tillits til efnis þeirra. Auðvitað er það ekki svo. Það einfaldlega blasir við af efni frumvarpsins sem hér er til umræðu að fjármálaráðherra forgangsraðar þeim sem betur standa. Við alþingismenn fáum í krónum talið umtalsvert meiri skattalækkun en fólk sem hefur meðaltekjur í landinu og miklu meira en þeir sem eru í lægri tekjuhópunum vegna þess að við fáum prósentulækkun á skattana okkar í staðinn fyrir að persónuafslátturinn sé hækkaður og allir fái einfaldlega sömu krónutölu. Það er eðlilegt að spyrja fjármálaráðherra hvers vegna hann forgangsraðar svona stíft til hægri í þessum efnum.

Það er líka eðlilegt að spyrja fjármálaráðherra, nú þegar svigrúm virðist vera til þess að slaka nokkuð á í gjöldum á almenning: Hefði ekki verið miklu eðlilegra að fara ekki í sérstaka hækkun á sjúklingasköttum og sérstaka hækkun á skólagjöldum, sem (Forseti hringir.) nýbúið er að hækka, þegar svigrúm sem þetta er fyrir hendi og deila þá þessum lækkunum á milli tekjuskattsins annars vegar (Forseti hringir.) og hins vegar sjúklinga og skólafólks en leggja ekki á það álögur um leið og verið er að lækka á okkur alþingismenn?