143. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:32]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Páll Valur Björnsson minnti okkur á það í ræðu að hlutverk okkar væri að vinna að almannaheill. Ég segi það að í okkar störfum er oft gott að vera í hinu stóra samhengi og ég trúi því jafnframt að við séum öll á því að hér sé sem réttlátust og jöfnust dreifing gæða.

Ég ætla að bera niður í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð.“

Virðulegi forseti. Það hafa einhverjar vangaveltur verið um að niðurstaða nefndar hafi verið á þá leið að það sé ekki hægt. Þvert á móti er niðurstaða nefndar að þetta sé nauðsynleg aðgerð, bæði meirihluta- og minnihlutaálits sem komu fram. Ég vil halda til haga mikilvægi þess fyrir neytendur að verðtrygging á neytendalán verði afnumin, að neytendalán verði í boði óverðtryggð í heilbrigðu samkeppnisumhverfi vaxta og með viðeigandi mótvægisaðgerðum þannig að greiðslubyrði lána verði viðráðanleg, og að jafnframt verði tekið á gömlu lánunum, böndum verði komið á vexti og verðtryggingu eldri verðtryggðra lána.

Virðulegi forseti. Það hefur sýnt sig að verðbólgumarkmið innan hafta gengur betur og virkar sem einhliða gengisfesting. Dreifing gæða í verðtryggðu kerfi er hins vegar ekki jöfn. Ein birtingarmynd þess er að lífeyrissparnaður okkar fer nú að stórum hluta í innlend fyrirtæki á markaði, matvöru, tryggingar o.s.frv., og ef verðlag hækkar skilar það sér mögulega í hærri ávöxtun. En hvað gerist á móti? Á sama tíma hækkar neysluvísitalan og húsnæðislánin hækka.

Nú eru kjöraðstæður til að stíga skrefið. Verðbólga er þrátt fyrir allt í sögulegu lágmarki og fjármálakerfið (Forseti hringir.) lokað í höftum.

Já, (Forseti hringir.) nú er rétta tækifærið til að afnema verðtryggingu neytendalána og vinna að jafnari (Forseti hringir.) og réttlátari (Forseti hringir.) dreifingu gæða.