143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

stjórnarfrumvörp um skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er óþarfi fyrir hv. þingmann að óttast að ekki séu nema tíu fundadagar eftir af þinginu, það er aðeins meira en það og nógu langur tími, tel ég vera, til að klára hin ýmsu mikilvægu mál sem bíða þess að klárast áður en þingið fer í sumarhlé. Þess vegna er ánægjulegt að ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann væri að taka undir ákall um afnám verðtryggingar. Þá hefur bæst við óvæntur liðsmaður í þeirri baráttu og ég tel að það geti ekki haft nema góð áhrif við að flýta því að af því verði.

Hins vegar vil ég líka róa hv. þingmann út af áhyggjum hans af því að verðbólga muni í millitíðinni éta upp leiðréttinguna. Það gerist ekki vegna þess að á meðan verðtryggingin er til staðar, og breytir engu um áform um afnám hennar, er leiðréttingahlutinn líka verðtryggður. Með öðrum orðum, ef lánin hefðu ekki verið leiðrétt hefðu þau hækkað þeim mun meira vegna verðtryggingarinnar. Framtíðarverðbólga, hver sem hún verður fram að þeim tíma að við komumst út úr þessu verðtryggða kerfi, mun ekki éta upp verðtrygginguna. Þvert á móti mun hún minna enn frekar á mikilvægi þess að ráðast í þá leiðréttingu sem ég vona að hv. þingmaður aðstoði okkur við að afgreiða hratt og vel í gegnum þingið.