143. löggjafarþing — 83. fundur,  27. mars 2014.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

474. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom víða við. Nokkrum atriðum vil ég vekja máls á. Hann setur samasemmerki á milli þess að verða fyrir tjóni af völdum efnahagshrunsins og hins að hafa gert eitthvað af sér.

Allt íslenska samfélagið varð fyrir tjóni af völdum efnahagshrunsins. Fólk missti heimili sín og fyrirtæki. Fjármálastofnanir töpuðu háum upphæðum, lífeyrissjóðir og allt samfélagið, ríki, sveitarfélög urðu fyrir miklum skaða. Það er ekki þar með sagt að allir sem hafi orðið fyrir skaða hafi gert eitthvað af sér.

Hv. þingmaður sparar ekki orðin: Glæpur gegn samfélaginu, skýr lögbrot, farið á bak við reglur og lög. Ég held að hv. þingmaður þurfi að færa betri rök fyrir máli sínu. Í skýrslunum hefur verið vísað í tvö lögfræðiálit varðandi lánasamninga við bankana. Annað var unnið á vegum Íbúðalánasjóðs, hitt var unnið á vegum bankanna eða að frumkvæði bankanna. Þeir hlupu hins vegar flestir frá því áður en yfir lauk og fráleitt að fullyrða með þeim hætti sem hér hefur verið gert að farið hafi verið á bak við reglur eða lög brotin hvað það snertir.

Síðan er hitt að hann verður skiljanlegur málflutningur hv. þingmanns gagnvart Íbúðalánasjóði þegar hann staðhæfir hér að skýrsluhöfundar dragi ekki taum fjármálafyrirtækja í þeim miklu átökum sem urðu á árunum 2003, 2004 og 2005, þegar tekist var á um (Forseti hringir.) líf og framtíð Íbúðalánasjóðs. Ég tel að svo hafi verið gert í þessari (Forseti hringir.) skýrslu og er tilbúinn að færa frekari rök fyrir því.